Erlent

Einn leið­toga Proud Boys dæmdur í 22 ára fangelsi

Árni Sæberg skrifar
Enrique Tarrio verður lengi í fangelsi.
Enrique Tarrio verður lengi í fangelsi. AP Photo/Allison Dinner

Enrique Tarrio, einn leiðtoga hægriöfgahópsins Proud Boys, var í dag dæmdur til 22 ára fangelsisvistar fyrir hlut hans í árásinni á bandaríska þinghúsið í ársbyrjun 2021. Það er þyngsti dómurinn sem fallið hefur vegna árásarinnar.

Í frétt Reuters um málið segir að Tarrio hafi verið fundinn sekur um samsæri gegn alríkisvaldinu fyrir að hafa hvatt til árásarinnar þrátt fyrir að hafa ekki verið viðstaddur hana. 

Í síðustu viku voru tveir aðrir leiðtogar samtakanna dæmdir í fangelsi vegna árásarinnar. Joe Biggs var dæmdur til sautján ára fangelsisvistar fyrir sinn hlut og Ethan Nordean átján ára. Í maí síðastliðnum var Stewart Rhodes, stofnandi öfgasamtakanna Oath Keepers, dæmdur til átján ára fangelsisvistar. Það var þá þyngsti dómurinn í tengslum við árásina.

„Þetta var fyrirframskipulögð hryðjuverkaárás. Hann beitti og hvatti til notkunar upplýsingaóreiðu,“ sögðu saksóknarar við þinghald í dag áður en refsing Tarrios var ákveðin. Saksóknar höfðu farið fram á 33 ára fangelsi. Hann var fundinn sekur í byrjun maí síðastliðins af kviðdómi.

Ríflega 1.100 hafa verið handteknir eða ákærðir vegna árásarinnar. Minnst 630 hafa játað aðild sína að henni og 110 verið sakfelldir.


Tengdar fréttir

Geta stefnt Trump vegna á­rásarinnar á þing­húsið

Lögreglumönnum og þingmönnum er heimilt að stefna Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, vegna árásar stuðningsmanna hans á þinghúsið, að mati bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Trump heldur því fram að hann njóti friðhelgi fyrir slíkum kröfum.

Trump sagður hafa kveikt upp­reisnar­bálið

Ábyrgðin á árás stuðningsmanna Donalds Trump á bandaríska þinghúsið í fyrra er á herðum eins manns: Trumps sjálfs. Þetta er niðurstaða þingnefndar sem rannsakaði árásina. Hún mælir með því að Trump verði bannað að gegna opinberu embætti aftur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×