Erlent

Stór ákvörðun Musk rakin til máls dóttur hans

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Hún trúir því að allir sem eru ríkir séu illmenni,“ segir Elon Musk um dóttur sína.
„Hún trúir því að allir sem eru ríkir séu illmenni,“ segir Elon Musk um dóttur sína. Mynd/EPA

Kaup Elon Musk á samfélagsmiðlinum Twitter og stefnubreytingar miðilsins eftir kaupin eiga rætur sínar að rekja til fjölskyldumála auðkýfingsins. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal sem byggir á ævisögu um Elon Musk.

Fram kemur að í aðdraganda kaupanna hafi Elon Musk verið orðinn áhyggjufullur vegna pólitískrar rétthugsunar, sem hann er sagður líkja við veiru í daglegu tali.

Áhyggjur Musk byggja á máli elsta barns hans, sem tilkynnti fjölskyldumeðlimum sínum í fyrra að hún væri trans. Þá var hún sextán ára gömul.

„Ekki segja föður mínum frá þessu“

„Hæ, ég er trans og ég heiti núna Jenna,“ á hún að hafa sent fjölskyldumeðlimi sínum. „Ekki segja föður mínum frá þessu,“ bætti hún við.

Þegar Musk frétti af þessu hafi hann verið nokkuð sleginn yfir fregnunum. Ekki bætti úr skák fyrir hann þegar hann komst að því að Jenna aðhylltist Marxisma.

„Hún gekk lengra en að vera sósíalisti. Hún er bara algjör kommúnisti og trúir því að allir sem eru ríkir séu illmenni,“ er haft eftir Musk í bókinni. Þess má geta að Musk er ríkasti maður heims samkvæmt Forbes.

Valdi honum miklum sársauka

Málið er sagt fara mikið fyrir brjóstið á honum. Um sé að ræða það sem hafi valdið honum mestum sársauka síðan fyrsta barnið hans lést nokkurra vikna gamalt árið 2002.

Jenna umgengst ekki föður sinn þessa dagana, en Musk vill meina að hann hafi ítrekað reynt að ná sáttum við hana, en án árangurs. „Hún vill bara ekki umgangast mig,“ segir hann.

Fram kemur að Musk kenni skólum sem hún stundaði nám við í Los Angeles um málið. Þar hafi hún verið innrætt af hugmyndafræðinni sem hún aðhyllist nú.

Jafnframt leit hann svo á að Twitter væri orðið uppfullt af þessum sömu hugmyndum. Og það er ein megin ástæða þess að hann lét til skarar skríða og keypti Twitter, sem heitir nú X.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×