Yfirtaka hans á fyrirtækinu sem kostar hann 44 milljarða dollara, rúmlega 6.300 milljarðar íslenskra króna, hefur tekið nokkra mánuði en í nótt tísti hann sjálfur þeim skilaboðum að „fuglinn sé nú frjáls“, en merki fyrirtækisins er blár fugl.
Breska ríkisútvarpið segir að Musk hafi ekki beðið boðanna heldur rekið flesta af stjórnendum Twitter á einu bretti, þar á meðal forstjórann, Parag Agrawal. Fyrirtækið sjálft hefur ekki enn staðfest fréttirnar en einn af fyrrverandi hluthöfum staðfestir við BBC að málinu sé nú lokið.
the bird is freed
— Elon Musk (@elonmusk) October 28, 2022
Musk, sem áður var stærsti hluthafi Twitter hafði gagnrýnt fyrirtækið harðlega fyrir að útiloka notendur frá forritinu sem ekki fylgdu ákveðnum samskiptareglum. Þannig var Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna meinaður aðgangur að Twitter. Musk segist vera harðlínumaður þegar kemur að tjáningafrelsinu og því vill hann að allir fái aðgang að Twitter, óháð skoðunum.
Nokkuð er liðið síðan Musk gerði yfirtökutilboðið en síðan hefur málið dregist og svo virtist um tíma sem hann hafi verið að reyna að komast út úr samningnum. Það varð til þess að stjórn Twitter stefndi honum fyrir að efna ekki samninginn en nú virðist vera komin niðurstaða í málið.
Auk Agrawal eru fjármálastjórinn Ned Segal og aðallögfræðingur og yfirmaður stefnumótunar, Vijaya Gadde, sögð hætt hjá fyrirtækinu eftir yfirtöku Musk. Reuters segir frá því að þeim Agrawal og Segal hafi verið fylgt út úr höfuðstöðvum Twitter í San Francisco eftir að kaupin gengu í gegn.