Kane og eiginkona hans, Kate, eignuðust sitt fjórða barn á sunnudaginn, dreng sem fékk nafnið Henry Edward.
Kane er nýgenginn í raðir Bayern München og skoraði eitt mark og lagði upp annað í 4-0 sigri liðsins á Werder Bremen í upphafsleik þýsku úrvalsdeildarinnar á föstudaginn.
Gárungarnir fóru umsvifalaust fram úr sér og veltu því fyrir sér hvort Henry hefði fæðst í München og myndi þá í framtíðinni eiga möguleika á að spila fyrir þýska landsliðið. En svo reyndist ekki vera.
Á myndunum sem Kane deildi af sér með Henry sást nefnilega ensk innstunga og orðin: baby boy, room 101.
Stuðningsmenn enska landsliðsins þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að Henry spili fyrir Þýskaland ef hann fetar í fótspor föður síns. Kane er fyrirliði enska landsliðsins og markahæsti leikmaður í sögu þess.
Fyrir áttu Kane og Kate dæturnar Ivy (sex ára) og Vivianne (fimm ára) og soninn Louis (tveggja ára).