Erlent

Blá­krabbinn ógnar af­komu þúsunda ein­stak­linga og fyrir­tækja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blákrabbi er hinn mesti skaðvaldur, þar sem hann leggst á skelfisk í samkeppni við veiðimenn og ræktendur.
Blákrabbi er hinn mesti skaðvaldur, þar sem hann leggst á skelfisk í samkeppni við veiðimenn og ræktendur. Getty/Anadolu Agency/ Mahmut Serdar Alakus

Blákrabbi ógnar nú afkomu þúsunda fyrirtækja og einstaklinga sem hafa atvinnu sína og lífsviðurværi af skelfisk undan ströndum norður Ítalíu. Krabbinn sem á heimkynni við strendur norður- og suður Ameríku er sagður ógna stöðu Ítalíu sem eins helsta skelfiskframleiðanda heims og skaðinn sem hann er þegar talinn hafa valdið er sagður nema um 100 milljónum evra.

Blákrabbi er gríðarlega mikilvæg fæða fyrir hákarla og skötur við Ameríku en hefur fengið að dafna óáreittur við strendur Ítalíu. Heimamenn á svæðunum þar sem útbreiðsla hans er hvað mest hafa verið hvattir til að veiða hann og nýta til matar en sérfræðingar segja það ekki nóg. 

Það sem af er ári hafa 326 tonn þegar verið veidd í Veneto af hinni ágengu krabbategund, þar af meira en hundrað tonn núna í ágúst. Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, lagði sitt af mörkum til baráttunnar þegar hún birti mynd af sér um helgina þar sem hún var að snæða blákrabba.

Talið er að blákrabbinn hafi borist til Evrópu með flutningaskipum, sem taka inn á sig vatn til að tryggja stöðugleika. Vatnið er ekki síað þegar það er losað í sjóinn í Miðjarðarhafinu, sem hefur greitt fyrir útbreiðslu tegundarinnar þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×