Íslenski boltinn

Fimm hundraðasti meistaraflokksleikur Daníels í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Laxdal hefur spilað með meistaraflokki Stjörnunnar í tuttugu ár.
Daníel Laxdal hefur spilað með meistaraflokki Stjörnunnar í tuttugu ár. Vísir/Hulda Margrét

Daníel Laxdal spilar í kvöld meistaraflokksleik númer fimm hundruð fyrir Stjörnuna en hann er langleikjahæsti leikmaður félagsins.

Það má búast við að Garðbæingar fjölmenni á leik kvöldsins enda möguleiki á að landa mikilvægum sigri og heiðra einn allra besta son félagsins.

Stjarnan mætir KR í kvöld í lokaleik tuttugustu umferðar Bestu deildar karla en með sigri tryggja Stjörnumenn sér þriggja stiga forskot á FH og KR í baráttunni um fjórða sætið.

Daníel hefur leikið 499 meistaraflokksleiki í öllum keppnum fyrir Stjörnuna samkvæmt heimasíðu KSÍ en hann hefur spilað með meistaraflokksliði félagsins frá árinu 2004.

Á tíma Daníels með meistaraflokki þá vann Stjarnan sér sæti í efstu deild, festi sig í sessi í efstu deild, varð að toppliði í deildinni og vann báða titla sína, Íslandsmeistaratitil 2014 og bikarmeistaratitil 2018.

Daníel hefur alls spilað 287 leiki fyrir Stjörnuna í efstu deild sem eru 114 fleiri leikir en næsti maður á lista. Hann spilaði einnig 59 leiki í B-deildinni áður en Stjarnann komst upp 2008, hefur spilað 42 bikarleiki, 89 leiki í deildabikar, 1 leik í Meistarakeppni KSÍ og loks á Daníel að baki 21 af 22 Evrópuleikjum Stjörnunnar í sögunni samkvæmt skráningu KSÍ.

Leikur Stjörnunnar og KR hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

  • Tímabil Daníels Laxdal með Stjörnunni 2009-2022:
  • 1 sinni Íslandsmeistari (2014)
  • 2 sinnum í öðru sæti (2016, 2017)
  • 3 sinnum í þriðja sæti (2013, 2018, 2020)
  • 3 sinnum í fjórða sæti (2011, 2015, 2019)
  • 2 sinnum í fimmta sæti (2012, 2022)
  • 2 sinnum í sjöunda sæti (2009, 2021)
  • 1 sinni í áttunda sæti (2010)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×