Erlent

Tekur ekki þátt í kapp­ræðum: „Al­menningur veit hver ég er“

Árni Sæberg skrifar
Trump verður ekki með á miðvikudaginn.
Trump verður ekki með á miðvikudaginn. Charlie Neibergall/AP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og frambjóðandi í forvali Repúblikana, hefur ákveðið að mæta mótframbjóðendum sínum ekki í kappræðum. „Almenningur veit hver ég er og hversu árangursríka forsetatíð ég átti. Þar af leiðandi mun ég ekki taka þátt í kappræðunum!“ sagði Trump á samfélagsmiðlinum Truth í gær.

Í frétt AP um málið segir að Trump hafi um nokkurra mánaða skeið ýjað að því að hann myndi ekki koma til með að taka þátt í kappræðum. Fyrstu kappræður frambjóðenda í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári fara fram á miðvikudag á sjónvarpsstöðinni Fox.

„Af hverju ætti ég að leyfa fólki sem mælist með eitt, tvö og núll prósent fylgi að bauna á mig spurningum heila kvöldstund,“ sagði forsetinn fyrrverandi í viðtali á Fox í júní.

Gæti farið til Carlsons í staðinn

Þá segir að Trump íhugi nú að mæta frekar í viðtal til fjölmiðlamannsins umdeilda Tucker Carlson á miðvikudaginn. Steven Cheung, aðstoðarmaður Trumps, segist hvorki geta staðfest né neitað því að viðtali hjá Carlson hafi þegar verið tekið upp, líkt og New York Times fullyrti á dögunum, en hvetur fólk til þess að fylgjast með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×