Enski boltinn

„Við erum enn þar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep ávallt líflegur.
Pep ávallt líflegur. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Pep Guardiola var virkilega ánægður er hann ræddi við fjölmiðla í kjölfar 1-0 sigurs Manchester City á Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni á laugardagskvöld.

„Ég á engin orð til að lýsa þakklæti mínu yfir frammistöðunni, hún var virkilega virkilega góð. Þetta er aðeins annar leikurinn en eftir það sem við gerðum á síðustu leiktíð á erum við enn þarna.“

„Við ræddum um hugarfar. Ástæðan fyrir sigrinum er hugarfar og við sýndum það enn á ný,“ sagði Pep áður en umræðan snerist að Phil Foden en enski vængmaðurinn lagði upp eina mark leiksins.

„Hann er gæðaleikmaður sem getur spilað í mörgum stöðum. Hann er síógnandi, ég er mjög ánægður. Hvernig hann hagar sér í kringum alla, hugarfarið er alltaf til staðar. Það er mikilvægast í þessu öllu saman.“

„Núna kemur löng vika, smá hvíld og við undirbúum okkur undir framtíðina,“ sagði Pep að lokum en Man City var að spila þriðja leikinn sinn á átta dögum í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×