Enski boltinn

Hótar því að hætta að halda með Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sjónvarpskonan Rachel Riley er stuðningsmaður Manchester United en hótar því nú að hætta að halda með félaginu.
Sjónvarpskonan Rachel Riley er stuðningsmaður Manchester United en hótar því nú að hætta að halda með félaginu. gETTY/Chris Brunskill

Enska sjónvarpsstjarnan Rachel Riley ætlar að hætta að styðja Manchester United ef félagið leyfir Mason Greenwood að spila aftur með liðinu.

Hinn 21 árs gamli Greenwood hefur verið í skammarkróknum hjá félaginu síðan hann var ásakaður um berja og kúga kærustu sína en þetta kom allt fram í dagsljósið þegar myndböndum og myndum af þeim var lekið á netið.

Greenwood var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, líkamsárás, valdbeitingu og stjórnsemi eftir að þetta kom fram í fjölmiðlum.

Ákærurnar voru aftur á móti felldar niður fyrr á árinu en Manchester United hélt áfram sinni eigin rannsókn. Á miðvikudaginn fréttist af því að stutt væri í niðurstöðu hjá United og það lak út að Greenwood fengi líklega að spila aftur með félaginu.

Sjónvarpskonan Rachel Riley tjáði sig um málið á samfélagsmiðlinum X og skrifaði þar að hún gæti ekki haldið áfram að halda með Manchester United ef framherjinn verði áfram hjá félaginu. Riley er með meistaragráðu í stærðfræði frá Oxford-háskóla og er þekkt fyrir þátttöku sína í þáttunum Countdown og 8 Out of 10 Cats Does Countdown. Hún hefur sömuleiðis verið þátttakandi í dansþáttunum Strictly Come Dancing.

„Þegar kemur að ofbeldi gegn stelpum og konum þá er aðeins eitt prósent kæra sem enda með dómi. Við höfum öll séð og heyrt nóg. Að láta sem að þetta sé í lagi er stór hluti af vandamálinu,“ skrifaði Rachel Riley.

„Það yrði skelfilegt fyrir klúbbinn að gera sitt í að viðhalda þessari menningu og sópa þessu undir teppið. Með því sendir félagið skilaboð til ofbeldismanna út um allt að þeir geti haldið áfram slíkri hegðun án eftirmála,“ skrifaði Riley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×