Erlent

Banda­ríkja­menn sam­þykkja form­lega að Úkraínu­menn fái F-16

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Á meðan þú bíður eftir þessum strætó, bíður Úkraína eftir F-16,“ segir á strætisvagni í Litháen.
„Á meðan þú bíður eftir þessum strætó, bíður Úkraína eftir F-16,“ segir á strætisvagni í Litháen. Getty/NurPhoto/Artur Widak

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa lagt blessun sína yfir að F-16 herþotur verði fluttar frá Danmörku og Hollandi til Úkraínu um leið og þjálfun flugmanna er lokið.

Herþoturnar eru bandarískar og sendingin háð samþykki bandarískra stjórnvalda.

Reuters segist hafa séð erindi undirritað af Blinken þar sem hann lýsi yfir fullum stuðningi Bandaríkjanna við sendingu þotanna og þjálfun úkraínskra flugmanna. Í erindinu segir að það sé fyrir öllu að Úkraína geti varist árásum Rússa og aðför þeirra að sjálfræði landsins.

Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti yfir stuðningi við þjálfun úkraínskra hermanna á F-16 þoturnar í maí en um svipað leyti var greint frá því að hún myndi fara fram í Danmörku og Rúmeníu. Rússar brugðust við með því að segja að uppátækið fæli í sér „gríðarlega áhættu“ fyrir Vesturlönd.

Bandalag ellefu ríkja stendur að þjálfun flugmannanna, sem Danir segja að muni mögulega byrja að skila árangri í byrjun næsta árs. 

Yfirvöld í Úkraínu greindu frá því á miðvikudag að þau gerðu ekki ráð fyrir því að F-16 herþoturnar yrðu teknar í notkun í vetur en að þær myndu rata til Úkraínu þegar flugmennirnir snéru aftur úr þjálfun.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagðist í júlí gera ráð fyrir því að herþoturnar yrðu teknar í notkun í mars næstkomandi.

Samkvæmt New York Times hefur eitt vandamálið snúið að tungumálakunnáttu úkraínsku flugmannanna en aðeins átta flugmenn hafa fundist sem eru taldir hafa nóga enskukunnáttu til að ljúka þjálfun. Tuttugu til viðbótar verða sendir til Bretlands í þessum mánuði, á nokkurs konar tungumálanámskeið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×