Erlent

Gengur illa að ráða við stjórn­lausan eldinn á Tenerife

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Slökkvistarf gengur ekki nógu vel á Tenerife þar sem svæðið er ansi hrjóstrugt og óaðgengilegt.
Slökkvistarf gengur ekki nógu vel á Tenerife þar sem svæðið er ansi hrjóstrugt og óaðgengilegt. Twitter/AP

Gróðureldarnir sem kviknuðu aðfararnótt þriðjudags á Tenerife hafa nú breitt úr sér yfir 1.800 hektara lands og gengur viðbragðsaðilum illa að ráða við þá.

Slökkviliðsmenn á eyjunni vinna nú hörðum höndum að því að tryggja að eldurinn dreifi sér ekki lengra í norðurátt. 

Svæðið sem hefur orðið fyrir barðinu á gróðureldunum er um 22 kílómetrar að ummáli. Bæirnir Arafo og Candelaria hafa orðið verst úti auk ákveðinna hluta Söntu Úrsúlu og La Victoria.

Fernando Clavijo, forseti Kanaríeyja, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi „Útlitið er ekki beint gott. Raunveruleikinn er sá að við höfum ekki náð markmiðum okkar þrátt fyrir slökkvistarf úr lofti.“

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir af gróðureldunum á eyjunni.

Næstu dagar mjög mikilvægir

Slökkvistarf gengur sérstaklega illa vegna umhverfisins sem er hrjóstrugt og óaðgengilegt. Slökkviliðsmenn hafa lagt sérstakt kapp á að eldurinn nái ekki til byggða.

Sveitarstjóri Candelaria, María Concepción Brito, segir aðstæður vegna gróðureldanna flóknar. Hitinn sé slíkur á ákveðnum stöðum að ekki er hægt að sinna slökkvistarfi af því vatnið gufar jafnóðum upp.

Eldurinn brennur glatt og þurfa slökkviliðsmenn að hafa hraðar hendur næstu daga áður en hitinn hækkar á sunnudag og það kemur meiri þurrkur.AP

Næstu dagar munu reynast gríðarmikilvægir af því að á sunnudaginn á hitinn aftur að hækka töluvert og rakastig að lækka. Það muni hafa slæm áhrif á slökkvistarf.

Í nótt unnu 200 slökkviliðsmenn á landi við slökkvistarf að sögn Clavijo og klukkan hálf níu að staðartíma í dag þá hefst slökkvistarf úr lofti. Sextán þyrlur vinna að slökkvistarfi í dag, tveimur fleiri en í gær með tilkomu nýrra þyrla.

Clavijo hefur biðlað til almennra borgara að hjálpa eins og þeir geta íbúum sem hafa verið brottfluttir vegna eldanna. Í heildina hafa 150 manns þurft að yfirgefa heimili sín en aðeins fjórir hafa þurft á aðstoð í björgunarmiðstöðvum Arafo og Candelaria.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×