Erlent

Kynna drög að frjáls­legri lögum um kanna­bis í Þýska­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Einstaklingar fengju leyfi til að rækta allt að þrjár kannabisplöntur til eigin nota verði hugmyndir þýsku stjórnarinnar að veruleika.
Einstaklingar fengju leyfi til að rækta allt að þrjár kannabisplöntur til eigin nota verði hugmyndir þýsku stjórnarinnar að veruleika. AP/Markus Schreiber

Þýska ríkisstjórnin kynnti í dag áform um að slaka á lögum og reglum um vörslu og sölu á kannabisefnum. Fái málið framgang á þingi mega einstaklingar eiga neysluskammta og rækta allt að þrjár kannabisplöntur.

Tillögur ríkisstjórnar Olafs Scholz, kanslara, gera ráð fyrir því að fólk átján ára og elda megi ganga í sérstaka kannabisklúbba sem fái leyfi til þess að rækta efnið til einkaneyslu félagsmanna. Fimm hundruð manns megi vera félagar í slíkum klúbbum að hámarki.

Einstaklingar fengju einnig heimild til þess að kaupa allt að 25 grömm af kannabis á dag en í mesta lagi fimmtíu grömm á mánuði. Fólk yngri en 21 árs fengi mest að kaupa þrjátíu grömm á mánuði, að sögn AP-fréttastofunnar.

Neysla kannabisefna yrði ólöglega í innan við tvö hundruð metra fjarlægð frá skólum, leikvöllum, íþróttavöllum eða húsnæði kannabisklúbba. Bannað yrði að auglýsa kannabis eða klúbbana.

Áform ríkisstjórnarinnar eru sögð ganga nokkuð skemur en hún ætlaði sér í upphafi. Ætlun hennar er að lög af þessu tagi taki gildi við lok þessa árs. Til þess að svo verði þarf þýska þingið að samþykkja frumvarp þess efnis.

Bæði andstæðingar og fylgismenn kannabisefna hafa gagnrýnt áform ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan segir áhættusamt að lögleiða kannabis og samtök dómara halda því fram að það muni auka álag á dómskerfið og jafnvel auka eftirspurn á svörtum markaði með kannabis.

Talsmenn lögleiðingar eru einnig ósáttir við hversu ströng skilyrði verði sett við vörslu og neyslu á kannabis.

Karl Lauterbach, heilbrigðisráðherra, segir það boða gott að áformin séu gagnrýnd úr báðum áttum. Þýskaland glími nú við vaxandi neyslu sem valdi vandræðum.

„Það hefði ekki verið hægt að halda svona áfram lengur,“ sagði Lauterbach.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×