Íslenski boltinn

Eyþór fenginn aftur til Breiðabliks

Sindri Sverrisson skrifar
Eyþór Aron Wöhler náði lítið að spila fyrir Breiðablik áður en hann fór að láni til HK en er nú mættur aftur í græna hluta Kópavogs.
Eyþór Aron Wöhler náði lítið að spila fyrir Breiðablik áður en hann fór að láni til HK en er nú mættur aftur í græna hluta Kópavogs. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik hefur kallað sóknarmanninn Eyþór Aron Wöhler heim úr láni hjá grönnum sínum í HK og hann mun því spila með Blikum það sem eftir lifir keppnistímabilsins.

Þetta staðfesti Ólafur H. Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, í samtali við Vísi í dag.

Ólafur sagði vonir standa til þess að hægt yrði að ganga frá málinu í dag svo að Eyþór yrði gjaldgengur með Breiðabliki strax á sunnudag þegar liðið mætir KA í Bestu deildinni, í leik sem fram fer á milli Evrópuleikja liðanna.

Eyþór hefur reynst HK-ingum vel og skorað þrjú mörk í Bestu deildinni í sumar, í tólf leikjum.

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, sagði í samtali við Vísi að ljóst hefði verið frá upphafi að Breiðablik ætti rétt á að kalla Eyþór til baka til sín, og að HK-ingar hefðu verið undir það búnir. Með það í huga hefði verið samið við danska sóknarmanninn Anton Söjberg á dögunum

Eyþór, sem er 21 árs gamall, kom til Breiðabliks frá ÍA eftir síðustu leiktíð og spilaði einn leik fyrir Blika í Bestu deildinni, sem og bikarleik og leikinn í Meistarakeppni KSÍ, áður en hann fór að láni til HK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×