Innlent

„Þetta eru myrkra­verk“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fara þurfti tvær ferðir með ruslið sem skilið var eftir um helgina í höfninni.
Fara þurfti tvær ferðir með ruslið sem skilið var eftir um helgina í höfninni. Kópavogshöfn

Meiri­háttar magn af rusli er í­trekað skilið eftir í hafnargarðinum við Kópa­vogs­höfn. Nú í vikunni var sér­lega mikið skilið eftir og kveðst hafnar­vörður vera orðinn þreyttur á á­standinu. Dæmi eru um að klósett, vaskur og elda­vél hafi verið skilin eftir í höfninni.

„Það er ekki eins og þetta komi frá einu heimili. Nema það sé ein­hver sjúk­lingur sem þar búi sem safni rusli og drasli bæði inni og úti um allt hús,“ segir Atli Her­manns­son, hafnar­vörður í Kópa­vogs­höfn.

Fara þurfti tvær ferðir á þjónustu­bíl Kópa­vogs­bæjar með ruslið sem skilið var eftir í hafnargarðinum um helgina. Atli segir magnið nú hafa verið ó­venju mikið.

„Þetta voru ekki bara einn eða tveir pokar. Heldur heill þjónustu­bíll. Það er eins og það sé verið að stinga út úr ein­hverju róna­greni og moka því þangað. Það eru flísa­af­gangar og allur and­skotinn þarna.“

Alltaf sé eitt­hvað um að dót sé skilið eftir, en þó alls ekki alltaf. 

„Það er alltaf eitt­hvað um þetta en meira þegar það tekur að skyggja á kvöldin. Þá getur fólk mætt hingað og skilið þetta eftir ó­á­reitt í skjóli myrkurs. Þetta eru myrkra­verk.“

Gæti opnað nytja­markað

Hann segir að fólk hafi skilið eftir alls­kyns rusl í höfninni. Allt frá hús­gögnum til plastrusls.

„Það er ekki langt síðan að það var skilið eftir klósett, vaskur og elda­vél. Ég gæti auð­veld­lega stofnað nytja­markað. Svo er fólk stundum ekki að ganga al­menni­lega frá og þá fýkur þetta út um allt. Maður verður bara, hvað á maður að segja, fyrir von­brigðum með þessa dýra­tegund.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×