Erlent

Telja sig hafa leyst ára­tuga gamalt morð­mál

Máni Snær Þorláksson skrifar
Laura Kempton fannst myrt þann 28. september árið 1981. Málið var óleyst í rúma fjóra áratugi en nú virðist vera komin niðurstaða í það.
Laura Kempton fannst myrt þann 28. september árið 1981. Málið var óleyst í rúma fjóra áratugi en nú virðist vera komin niðurstaða í það. New Hampshire Attorney General

Rúmlega fjórir áratugir eru síðan Laura Kempton var myrt þegar hún var einungis 23 ára gömul. Málið hefur verið óleyst síðan þá en nú telja yfirvöld í New Hampshire í Bandaríkjunum sig vita hver það var sem myrti Kempton.

Laura Kempton var nemi í borginni Portsmouth í New Hampshire og starfaði auk þess í gjafavöruverslun og ísbúð. Lögregluþjónn sem átti að færa Kempton stefnu fyrir stöðubrot fann hana látna í íbúðinni sinni. 

Búið var að binda rafmagnssnúru utan um fætur Kempton og símalínu utan um háls hennar og axlir. Undir höfðinu hennar var gólfmottan blóðug og leiddi krufning í ljós að hún lést af völdum höfuðhöggs. Síðast hafði sést til hennar á lífi fyrr um morguninn, að koma ein heim til sín.

Lögregla safnaði sönnunargögnum á vettvangi, meðal annars sígarettustubb, kodda og glerflösku. Í ljós kom að erfðaefni á sönnunargögnunum tilheyrði karlmanni. Það dugði þó ekki til að leysa málið á sínum tíma og í rúm fjörutíu ár bar rannsókn engan árangur.

Öryggisvörður hafi myrt Kempton

Í fyrra hóf lögreglan í Portsmouth að vinna með erfðarannsóknarstofum í New Hampshire og Maine til að reyna að leysa málið. Svo virðist sem það hafi tekist því samkvæmt AP telur lögreglan nú að maður að nafni Ronney James Lee beri ábyrgð á morðinu á Kempton.

Lee var 21 árs og vann sem öryggisvörður þegar Kempton var myrt. Ekki var vitað til þess að það væru nein tengsl á milli hans og Kempton. Hann lést árið 2005 eftir að hafa tekið of stóran skammt af kókaíni en samkvæmt John Formella, ríkissaksóknara New Hampshire, hefði Lee verið ákærður fyrir morðið ef hann væri ennþá á lífi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×