Hjá Leeds mun Grétar vinna að leikmannamálum. Hann býr yfir mikilli reynslu á því sviði eftir að hafa starfað hjá Fleetwood Town, Everton og nú síðast Tottenham. Þá starfaði Grétar um tíma sem ráðgjafi fyrir KSÍ.
Ekki er enn ljóst hvaða starfstitill Grétar fær hjá Leeds en hann verður nokkuð hátt settur hjá félaginu. The Athletic greinir frá.
Leeds er að gera breytingar á starfsliði sínu eftir að Victor Orta, sem var yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu í sex ár, var látinn taka pokann eftir að Leeds féll úr ensku úrvalsdeildinni. Leeds fékk Nick Hammond, fyrrverandi yfirmann knattspyrnumála hjá Leeds, í tímabundið starf og hann sér um leikmannakaup og -sölur hjá félaginu í sumar.
Grétar lagði skóna á hilluna 2013. Á ferlinum lék hann á Íslandi, í Sviss, Hollandi, Englandi og Tyrklandi.