Erlent

Rutte hyggst segja skilið við stjórn­málin

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Rutte hefur gegnt embætti forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010.
Mark Rutte hefur gegnt embætti forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010. EPA

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir að hann muni segja skilið við stjórnmálin eftir komandi þingkosningar. Greint var frá því fyrir helgi að hollenska ríkisstjórnin væri sprungin vegna deilna innan stjórnarliðsins um innflytjendamál.

Rutte tók fyrst við embætti forsætisráðherra Hollands árið 2010 og er sá sem lengst hefur gegnt embættinu. Fráfarandi ríkisstjórn er sú fimmta sem Rutte leiðir.

Hinn 56 ára Rutte, sem er formaður íhaldsflokksins VVD, greindi frá ákvörðun sinni á hollenska þinginu í morgun.

„Ég tók þá ákvörðun í gær að ég myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður VVD. Þegar ný ríkisstjórn tekur við stjórnartaumunum eftir komandi kosningar mun ég kveðja stjórnmálin,“ sagði Rutte.

Rutte hefur leitt fjögurra flokka ríkisstjórn síðustu misserin en Rutte gekk á fund konungs á laugardag og tilkynnti að stjórnin væri sprungin vegna deilna um stjórn innflytjendamála.

Enn á eftir að boða formlega til kosninga í landinu, en Rutte verður starfandi forsætisráðherra þar til að ný stjórn tekur við.


Tengdar fréttir

Ríkis­stjórn Hollands sprungin

Ríkisstjórn Hollands er sprungin vegna ósættis stjórnarflokkana um innflytjendamál. Ríkisstjórnin hefur verið ósammála um hvernig hún eigi að snúa sér í málaflokknum í nokkurn tíma en um eitt og hálft ár er síðan hún tók til starfa. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×