Innlent

Ekki tekið á­kvörðun um að á­frýja í Vatns­enda­máli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir bæinn hafa verið undirbúinn vegna dóms í Vatnsendamáli.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir bæinn hafa verið undirbúinn vegna dóms í Vatnsendamáli. Vísir/Arnar

Kópa­vogs­bær hefur ekki tekið á­kvörðun um að á­frýja á­kvörðun Héraðs­dóms Reykja­ness sem gert hefur bænum að greiða Magnúsi Pétri Hjalte­sted, syni Þor­steins Hjalte­sted heitins, 1,4 milljarða króna á­samt vöxtum í deilum um Vatns­enda­land. Bærinn hefur undan­farin ár verið með var­úðar­færslur vegna málsins í bókum sínum.

Þetta kemur fram í skrif­legu svari Ás­dísar Kristjáns­dóttur, bæjarstjóra Kópavogs, til Vísis. Dómur var kveðinn upp í héraði í dag og var í dómi einnig viður­kennd skylda Kópa­vogs­bæjar til að greiða skaða­bætur vegna tapaðra ár­legra leigu­tekna af þrjú hundruð lóðum undir sér­býli í landi Vatns­enda.

Deilurnar hafa staðið yfir í rúm­lega fimm­tíu ár og hafa leitt af sér fjöldan allan af dómum, þar af marga sem taldir eru meðal þeirra mikil­vægustu í ís­lenskum eignar­rétti. Vatns­enda­jörðin náði upp­haf­lega yfir gríðar­legt land­flæmi á höfuð­borgar­svæðinu, eða allt frá Sel­tjarnar­nesi upp að Blá­fjöllum.

Var­úðar­færslur undan­farin ár vegna málsins

„Við munum gefa okkur næstu daga í að rýna dóminn og fara yfir for­sendur hans,“ skrifar Ás­dís í svari sínu til Vísis.

Spurð hvort að dómurinn komi til með að hafa á­hrif á rekstur bæjarins, þar sem um afar háa upp­hæð sé að ræða, segir Ás­dís að bærinn hafi undan­farin ár hafa verið með var­úðar­færslur vegna málsins í bókum bæjarins.

„Og því hefur þessi niður­staða ekki á­hrif á rekstur og ó­veru­leg á­hrif á efna­hag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×