Erlent

Banda­ríkin eyða síðustu efna­vopnum sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnin kvödd. Starfsmenn Pueblo-efnavopnageymslu Bandaríkjahers í Colorado meðhöndla hylki með sinnepsgasi. Lokið var við að eyða gasinu 22. júní. Enn á eftir að klára að eyða saríngasbirgðum í Kentucky.
Vopnin kvödd. Starfsmenn Pueblo-efnavopnageymslu Bandaríkjahers í Colorado meðhöndla hylki með sinnepsgasi. Lokið var við að eyða gasinu 22. júní. Enn á eftir að klára að eyða saríngasbirgðum í Kentucky. AP/David Zalubowski

Flugskeyti með saríngasi sem unnið er að því að eyða á herstöð í Kentucky eru síðustu efnavopn Bandaríkjanna. Síðustu birgðunum verður eytt fyrir lok september í samræmi við efnavopnasáttmálans sem 193 ríki skrifuðu undir árið 1997.

Bandaríkjaher hefur unnið að því að eyða efnavopnum sínum í á þriðja áratug en nú sér fyrir endann á verkefninu. Efnavopnabirgðir Bandaríkjamanna námu um 30.000 tonnum við lok kalda stríðsins.

Saríngasið í Kentucky hefur verið geymt þar frá 5. áratug síðustu aldar. Nú er aðeins hluti þeirra 51.000 flugskeyta með gasinu sem voru upphaflega geymd þar eftir. Starfsmenn annarrar herstöðvar í Colorado luku við að eyða síðustu birgðunum af sinnepsgasi 22. júní.

Hernaðarsérfræðingar AP-fréttastofunnar segja að með því að eyða síðustu skráðu efnavopnum sínum reyni Bandaríkin að senda þeim örfáu ríkjum sem eiga ekki aðild að efnavopnasáttmálanum að notkun efnavopna sé ekki lengur ásættanleg á vígvellinum. 

Aðeins Norður-Kórea, Egyptaland og Suður-Súdan hafa ekki undirritað sáttmálann. Ísrael skrifaði undir en hefur aldrei fullgilt sáttmálann. Þá leikur grunur á að ríki eins og Rússland og Sýrland búi yfir efnavopnum sem þau halda leyndum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Flugskeyti með saríngasi tilbúið til eyðingar í Blue Grass-efnavopnaeyðingarstöðinni í Richmond í Kentucky.AP/Bandaríkjaher

Andstaða nágranna herstöðvanna

Efnavopn voru fyrst notuð í fyrri heimsstyrjöldinni. Talið er að í það minnsta 100.000 manns hafi fallið af völdum þeirra þá. Notkun efnavopna var bönnuð með Genfarsáttmálanum árið 1925 en ríki heims héldu áfram að hamstra þau allt þar til efnavopnasáttmálinn var undirritaður 72 árum síðar.

Eyðing efnavopnanna í Bandaríkjunum gekk ekki átakalaust. Íbúar í nágrenni herstöðvanna þar sem eiturefnin voru geymd mótmæltu upphaflegu áformunum um að brenna þau. Þeir óttuðust að eitraða mengun gæti lagt yfir nærliggjandi byggð. Herinn þurfti því að leggja fram nýjar aðferðir við brennslu á efnunum til þess að sefa áhyggjufulla nágranna sína.

Kingston Reif, yfirmaður vopnaeftirlitsmála hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu, segir að mikilvægum kafla í hernaðarsögunni verði lokið þegar síðustu efnavopnunum hefur verið eytt, „en það er kafli sem við hlökkum mjög til að ljúka“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×