Enski boltinn

Vill fá Bernar­do Silva til Parísar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Luis Enrique ætlar að gera Bernardo Silva að sínum fyrstu kaupum en allt bendir til þess að Spánverjinn taki við PSG á næstu dögum.
Luis Enrique ætlar að gera Bernardo Silva að sínum fyrstu kaupum en allt bendir til þess að Spánverjinn taki við PSG á næstu dögum. Vísir/Getty

Yfirgnæfandi líkur eru á því að Luis Enrique verði næsti þjálfari PSG og hann hefur nú þegar ákveðið hvaða leikmaður verði hans fyrsta skotmark þegar hann er tekinn við Parísarliðinu.

Luis Enrique hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá PSG og eftir að Christophe Galtier knattspyrnustjóri liðsins var handtekinn í gær er aðeins tímaspursmál hvenær hinn spænski Enrique verður tilkynntur sem nýr stjóri Parísarliðsins.

Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Enrique sé nú þegar búinn að ákveða að gera Portúgalann Bernardo Silva að sínum fyrstu kaupum. Silva átti frábært tímabil hjá Manchester City en hann vill yfirgefa liðið sem varð Englands- og Evrópumeistari á síðasta tímabili.

Silva hefur lengi verið orðaður við Barcaelona sem og félög í Sádi Arabíu en nú virðist sem París sé líklegasti áfangastaður hans. Ólíklegt er að Barcelona geti boðið þær 75 milljónir punda sem City vill fá fyrir Silva en sömuleiðis gæti orðið erfitt fyrir Silva sjálfan að hafna stjarnfræðilega háu tilboði frá Sádi Arabíu.

Silva er sagður náinn Lucas Campos, ráðgjafa PSG, síðan þeir voru á sama tíma hjá Monaco og Luis Enrique vill greinilega nýta sér það og tryggja sér þjónustu Portúgalans frábæra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×