Erlent

NAS­­CAR-stjarna dregur sig í hlé eftir blóðugan fjöl­­skyldu­harm­­leik

Kjartan Kjartansson skrifar
Jimmie Johnson með eiginkonu sinni Chöndru Janway eftir keppni í Texas árið 2012. Foreldrar hennar fundist látnir af völdum skotsára í Oklahoma á mánudag.
Jimmie Johnson með eiginkonu sinni Chöndru Janway eftir keppni í Texas árið 2012. Foreldrar hennar fundist látnir af völdum skotsára í Oklahoma á mánudag. AP/Tim Sharp

Sjöfaldi NASCAR-meistarinn Jimmie Johnson keppir ekki um helgina eftir að foreldrar og ungur frændi eiginkonu hans fundust látin á mánudag. Svo virðist sem að tengdamóðir hans hafi skotið eiginmann sinn og barnabarn til bana áður en hún svipti sig lífi.

Keppnislið Johnson, Legacy Motor Club, tilkynnti í gær að hann tæki ekki þátt í kappakstri á götum Chicago um helgina. Fjölskylda hans óskaði eftir næði og ætlaði ekki að tjá sig frekar.

Fréttirnar komu eftir að tengdaforeldrar hans á sjötugsaldri og ellefu ára gamall frændi Chöndru Janway Johnson, eiginkonu hans, fundust látin á heimili sínu í bænum Muskogee í Oklahoma, um 80 kílómetra suðaustur af Tulsa, á mánudag.

Lögreglan í Muskogee segir að málið sé rannsakað sem morð og sjálfsvíg. Vísbendingar séu um að Terry Janway, móðir Chöndru, hafi skotið Jack Janway, eiginmann sinn, og Dalton Janway, barnabarn þeirra, og síðan skotið sjálfa sig.

Talskona lögreglunnar segir að kona, sem talið sé að hafi verið Terry Janway, hafi hringt á lögregluna og tilkynnt um heimilisófrið þar sem skotvopn kom við sögu á mánudag. Þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi þeir fundið lík Jacks Janway í gangi nærri útidyrunum. Á meðan þeir fjarlægðu líkið hafi þeir heyrt byssuskot annars staðar í húsinu. Þá fundu þeir lík Terry og Dalton Janway. Ekkert liggur fyrir um tilefni skotárásarinnar, að sögn Washington Post.

NASCAR er vinsælasta akstursíþrótt Bandaríkjanna og Johnson hefur verið ein skærsta stjarna hennar um árabil. Á tveimur áratugum hefur hann unnið 83 NASCAR-keppnir og deilir metinu um flesta meistaratitla með Richard Petty og Dale Earnhardt. 

Johnson hætti fullri þátttöku í NASCAR eftir tímabilið 2020 og keppti í IndyCar í tvö ár með takmörkuðum árangri. Í ár hefur Johnson tekið þátt í völdum keppnum en hann er einnig meðeigandi keppnisliðs síns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×