Innlent

Hand­teknir um borð í skútu með mikið magn fíkni­efna

Eiður Þór Árnason skrifar
Fíkniefnin eru í haldi lögreglu. Myndin er úr safni.
Fíkniefnin eru í haldi lögreglu. Myndin er úr safni. vísir/vilhelm

Tveir voru handteknir um borð í skútu undan suðurströnd Íslands um helgina eftir að mikið magn fíkniefna fannst þar um borð. Þá var þriðji einstaklingurinn handtekinn í landi vegna málsins.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa þeir allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 4. júlí næstkomandi á grundvelli rannsóknahagsmuna.

Fram kemur í tilkynningu að embættið hafi notið aðstoðar Landhelgisgæslunnar, tollgæslu, lögreglunnar á Suðurnesjum og sérsveitar ríkislögreglustjóra við aðgerðirnar. Lögreglan hyggst ekki veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.

Enn eitt skútumálið

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögregla leggur hald á mikið magn fíkniefna um borð í skútu við Íslandsstrendur en sex karlmenn voru dæmdir í samtals 32 ára fangelsi í héraðsdómi árið 2008 fyrir að reyna að smygla um 40 kílóum af fíkniefnum frá Danmörku til Fáskrúðsfjarðar með viðkomu í Færeyjum í Pólstjörnumálinu svokallaða. 

Þá voru sex menn dæmdir til samtals 40 ára fangelsisvistar árið 2009 fyrir að flytja 109 kíló af fíkiefnum til Íslands frá Belgíu með skútunni Sirtaki.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×