Breska blaðið The Guardian hefur eftir Blinken að bandarísk stjórnvöld hafi undirbúið sig undir allar mögulegar niðurstöður vegna stöðunnar í Rússlandi, meðal annars þá stöðu að ríkisstjórn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta falli.
„Um er að ræða innanríkismál Rússa sem þeir verða að leysa úr. Að sjálfsögðu fylgjumst við með stöðunni þegar um er að ræða ríki af þessum skala, sérstaklega ríki sem hefur yfir að búa kjarnorkuvopnum,“ segir ráðherrann.
Bandarísk yfirvöld hafi ekki tekið eftir neinum breytingum á tilhögun rússneskra kjarnorkuvopna. Blinken segir hinsvegar að yfirvöld fylgist grannt með stöðunni. Hann segir skammlífa uppreisn Wagner liða fela í sér raunverulega ógn við vald Vladimírs Pútíns og sýni raunverulega bresti í valdi rússneska hersins.
„Staðan felur í sér raunverulegar áskoranir fyrir Pútín og rússnesk yfirvöld sem þau geta ekki litið framhjá á sama tíma og þau eru að kljást við sókn Úkraínumanna. Ég held að þetta feli í sér tækifæri fyrir Úkraínumenn í stríðinu.“