Innlent

Veður­barinn hjól­reiða­maður ekki viss um að hægt sé að mæla með Ís­lands­ferð

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Stéphane Urquizar frá Frakklandi hefur aldeilis fengið að kynnast íslensku veðurfari.
Stéphane Urquizar frá Frakklandi hefur aldeilis fengið að kynnast íslensku veðurfari. Vísir

Frakki sem hjólaði hringinn í kringum Ísland er ekki viss um að hann geti mælt með ferðalagi til landsins vegna veðurs. Hringferðin tók hann mánuð og var hann uppgefinn á köflum í baráttu við íslenska vindinn.

Í fréttaferð okkar á Egilsstöðum hittum við fyrir tilviljun Frakkann Stephane sem hafði þann dag nýlokið hringferð sinni um landið á hjóli. Ferðina fékk hann í fimmtugsafmælisgjöf en hann hafði lengi dreymt um að ferðast til Íslands og hjóla hringinn í kringum landið.

Túrinn hófst á Seyðisfirði þar sem hann hjólaði suður og endaði fjórum vikum síðar á Egilsstöðum. Mánuðurinn á hjólinu var að hans sögn skrautlegur en svona lýsir hann upplifuninni:

„Það var athyglisvert en það var galið,“ segir hjólreiðamaðurinn Stéphane Urquizar. Íslenskt veðurfar henti illa fyrir hjólreiðar af þessu tagi. 

„Það er of mikið rok, of mikil rigning. Ekki nóg sól.“

Ekta íslenskt, en hann segir veðurskilyrði á Suðurlandi sérstaklega slæm. Stephane gisti í tjaldi hér og þar um landið. Ferðin hafi tekið á og á köflum hafi hann verið uppgefinn í baráttu við vindinn. Þá er hann ekki viss um að hann geti mælt með landinu, þó það sé afspyrnu fallegt.

Myndir þú mæla með því?

„Íslandi? Ég er ekki viss um það núna. Kannski eftir nokkrar vikur. Kannski. En í alvöru, Ísland er dásamlegt land, fallegt landslag, ég elska það en veðrið er svo erfitt. Það er erfitt að segja hvort það sé góð eða ekki góð hugmynd að koma hingað. Ég er ekki viss.“

Og næst á dagskrá er að flýja rokið, á hjólinu.

„Ég ætla að fara aftur heim á hjólinu. Þrjár vikur í viðbót.“

Fjölmargir hafa tekið ljósmyndir af Stéphane hjóla um landið síðustu vikur og óskar hann nú eftir að fá slíkt myndefni sent til sín á Instagram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×