Umfjöllun og viðtöl: Sel­foss - Stjarnan 2-1 | Fyrsti sigur Selfyssinga í 36 daga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Barbára Sól Gísladóttir skoraði fyrra mark Selfyssinga í kvöld.
Barbára Sól Gísladóttir skoraði fyrra mark Selfyssinga í kvöld. Vísir/Vilhelm

Selfoss vann langþráðan 2-1 sigur er liðið tók á móti Stjörnunni í Bestu-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Selfyssingar höfðu tapað fimm leikjum í röð í öllum keppnum, en seinasti sigur þeirra kom þann 16. maí síðastliðinn.

Fyrri hálfleikurinn bauð ekki upp á neina flugeldasýningu, en þó litu þrjú mörk dagsins ljós áður en liðin gengu til búningsherbergja.

Barbára Sól Gísladóttir, sem hingað til hefur leikið í bakverði á tímabilinu, var mætt upp á topp í Selfossliðinu og hún var ekki lengi að láta að sér kveða. Eftir rétt tæplega stundarfjórðungsleik vann hún boltann af Eyrúnu Emblu Hjartardóttur sem var full kærulaus í öftustu línu. Barbára tók sprettinn að marki gestanna og lyfti honum snyrtilega yfir Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving í marki Stjörnunnar, 1-0.

Reynsluboltinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir jafnaði svo metin fyrir gestina á 27. mínútu þegar hún mætti hornspyrnu Sædísar Rúnar Heiðarsdóttur af miklum krafti á nærstönginni, stakk sér fram fyrir varnarmenn Selfoss og stangaði boltann í netið af stuttu færi.

Staðan var þó ekki jöfn lengi því heimakonur tóku forystuna á ný sjö mínútum síðar þegar Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir tók aukaspyrnu úti á vinstri kanti, fann kollinn á Jimena López, hún stýrði boltanum í fjærhornið og staðan var 2-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo að miklu leyti svipaður þeim fyrri, fyrir utan það að markverðirnir þurftu ekkert að vera að standa í því að sækja boltann í netið.

Bæði lið sköpuðu sér fá færi og í raun benti eiginlega aldrei til þess að Stjörnukonur myndu jafna metin. Þær fengu þó álitlegt færi til að skora jöfnunarmark þegar Gunnhildur Yrsa réðst á fyrirgjöf sem skoppaði inn á teig Selfyssinga, en Idun Jorgensen var vel vakandi í markinu og blakaði boltanum frá.

Annars var frá litlu að segja úr síðari hálfleiknum og Selfyssingar unnu að lokum vægast sagt langþráðan 2-1 sigur. Selfoss situr þó enn á botni deildarinnar, nú með sjö stig eftir níu leiki. Stjörnukonur sitja hins vegar í sjötta sæti með ellefu stig.

Af hverju vann Selfoss?

Selfossliðið nýtti þau fáu færi sem það fékk og skoraði tvö góð mörk. Barbára Sól nýtti sér sofandahátt í vörn gestanna og kom Selfyssingum yfir og Jimena López skoraði svo gott skallamark eftir aukaspyrnu frá Sigríði Theódóru. Stjörnukonur fengu um það bil jafn fá færi og Selfyssingar, en nýttu aðeins eitt þeirra og því fór sem fór.

Hverjar stóðu upp úr?

Jimena López átti virkilega flotta spretti í liði Selfyssinga og toppaði sinn leik með góðu marki. Barbára Sól á einnig hrós skilið fyrir sína frammistöðu í nýrri stöðu og markið sem hún skoraði og þá má ekki gleyma Idun Jorgensen í marki Selfyssinga sem bjargaði líklega stigunum þremur með frábærri markvörslu í síðari hálfleik.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk afar illa að skapa sér færi. Allt í allt fengu líklega fjögur færi að líta dagsins ljós, en vissuelga enduðu þrjú þeirra með marki. Leikurinn var oft og tíðum hægur og hvorugt liðið fann leiðir í gegnum vörn andstæðingana.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer norður á Akureyri og heimsækir Þór/KA klukkan 16:00 á sunnudaginn og Selfyssingar taka á móti ÍBV í suðurlandsslag degi síðar klukkan 18:00.

Björn: Liðið mitt var geggjað í dag

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss.Vísir/Hulda Margrét

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga, var eðlilega kátur eftir sigur liðsins í kvöld. Hann segir alveg óhætt að tala um langþráðan sigur.

„Það má alveg tala um það, algjörlega. En líka bara frammistaðan, því við vorum ógeðslega þéttar og góðar í lágu blokkinni og góðar í pressunni þegar það átti við,“ sagði Björn að leik loknum.

„Þetta er eitthvað sem ég hef kannski verið að leggja minni áherslu á í mínu liði að vera að verjast í lágri blokk. Við höfum verið að pressa mikið og verið pínu kamikaze og það hefur komið niður á okkur. Núna undirbjuggum við okkur fyrir það, af því að við vitum að Stjarnan er með hrikalega gott lið í að spila sig í gegn, þá undirbjuggum við okkur fyrir það. Og já, liðið mitt var geggjað í dag.“

Fyrir leik var Björn spurður að því hvort hann væri búinn að finna lausnina við markaþurrð Selfyssinga í sumar og sagðist hann vona það. Hann setti bakvörðinn Barbáru Sól Gísladóttur upp á topp og hún skilaði marki strax á 14. mínútu leiksins.

„Ég sagðist vona það,“ sagði Björn léttur. „Hún hefur allt að bera til að vera framherji og bara svoan nútíma sóknarmaður. Hún er stór og sterk og fljót og ógeðslega áræðin. Við þurfum bara svolítið að vinna í að fínpússa ákveðna hluti hjá henni og sjá hvort að þetta sé hennar framtíðarstaða.“

Þá segir Björn að þrátt fyrir að liðið hafi kannski ekki skapað sér mörg færi í leik kvöldsins hafi Selfyssingar verið að taka skref í rétta átt.

„Já hundrað prósent. Við gefum heldur ekki mikið af færum á okkur. Idun átti reyndar alveg geðbilaða markvörslu þarna einu sinni sem að vinnur þennan leik fyrir okkur og það er ótrúlega góð tilfinning líka þegar markmenn gera það. Þetta er hundrað prósent skref í rétta átt. Þrjú stig og allt í einu erum við komin með sjö stig á töfluna. Það breytir miklu fyrir okkur.“

Hann segir það líka óneitanlega betra að fara inn í næsta leik með sigur í farteskinu frekar en sjötta tapið í röð.

„Já og nú þurfum við bara að halda áfram. Það eru einhvernveginn allir leikir í deildinni erfiðir í ár. Þessi deild er búin að vera ótrúlega skrýtin og það áttu allir von á því að Stjarnan yrði í einhverri titilbaráttu, en núna eru þær allt í einu að tapa fyrir botnliði Selfoss.“

„Þannig að þetta er skemmtilegt, en að sama skapi erfitt,“ sagði Björn að lokum.

Kristján: Titilbarátta eitthvað sem við getum alveg beðið með að tala um

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

„Það var dauft yfir okkur allan leikinn og spilið gekk mjög hægt,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok.

„Við náðum ekki upp nógu góðri stemningu. Við jöfnum leikinn, en náum ekki að fylgja því eftir.“

Hann segir að sú staðreynd að Selfyssingar hafi nýtt sín tvö færi í kvöld, í bland við bitleysi Stjörnukvenna, hafi skilið að í kvöld.

„Það voru mjög fá færi í leiknum og nánast var það þannig að ef þú kláraðir þitt þá varstu búinn að vinna leikinn. En mér fannst öll mörkin slysaleg í leiknum og þá varstu heppinn að fá opið færi eða ekki. Leikurinn var hægur og lítið að gerast þannig séð. En við erum svona mest svekkt með að það hafi ekki verið meira líf í okkur.“

Keppni er nú hálfnuð í Bestu-deild kvenna áður en deildinni verður skipt upp í efri og neðri helming og Stjörnukonur sem ætluðu sér að vera í toppbaráttu sitja í sjötta sæti með aðeins 11 stig eftir níu leiki.

„Við með of misjafnt lið milli leikja. Einn leikinn erum við bara í fínu standi og svo í næsta leik förum við á töluvert lágt plan eins og kannski í dag. Þannig að við þurfum að laga það og vera með jafnari frammistöðu. Í framhaldi af því þurfum við að skapa fleiri færi í leikjunum, það liggur alveg fyrir.“

Þá segist Kristján ekki vera búinn að gefa titilbaráttuna upp á bátinn, en viðurkennir þó að bilið í efstu liðin er orðið ansi breitt.

„Núna er alveg hægt að segja að við séum það langt frá - þetta eru fjórir leikir - að titilbarátta sé eitthvað sem við getum alveg beðið með að tala um. En við munum ekkert hætta að hugsa um einhvern topp fyrr en það er tölfræðilega ómögulegt, en staðan núna lítur ekki þannig út að við séum að fara að stríða einhverjum toppliðum,“ sagði Kristján að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira