Erlent

Hörð hægri­stjórn tekur við völdum í Finn­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Petteri Orpo á leið á blaðamannafund í finnska þinghúsinu eftir að þingmenn kusu hann forsætisráðherra.
Petteri Orpo á leið á blaðamannafund í finnska þinghúsinu eftir að þingmenn kusu hann forsætisráðherra. Vísir/EPA

Finnska þingið lagði blessun sína yfir nýja fjögurra flokka samsteypustjórn hægriflokka undir forsæti Petteris Orpo í dag. Leiðtogi hægrijaðarflokksins Sannra Finna verður fjármálaráðherra nýju stjórnarinnar sem boðar skarpa hægri beygju í útlendingamálum.

Orpo leiðir samsteypustjórn Sambandsflokksins, Sannra Finna, Sænska þjóðarflokksins og kristilegra demókrata sem unnu samanlagt meirihluta sæta á þingi í kosningum sem fór fram 2. apríl. Stjórnarmyndunarviðræður flokkanna tóku 44 daga og lauk ekki fyrr en í síðustu viku.

Þingheimur greiddi atkvæði um Orpo sem forsætisráðherra. Hann hlaut 107 atkvæði en 81 þingmaður greiddi atkvæði gegn honum og ellefu voru fjarverandi.

„Ég þakka ykkur innilega fyrir það traust sem þið hafið sýnt mér,“ sagði Orpo að atkvæðagreiðslunni lokinni.

Riikka Purra, leiðtogi Sannra Finna, verður fjármálaráðherra í ríkisstjórninni. Elina Valtonen, varaformaður Sambandsflokks Orpo, verður utanríkisráðherra, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Orpo lofaði því að draga úr hallarekstri ríkissjóðs í kosningabaráttunni en einnig að lækka skatta og örva atvinnusköpun einkageirans.

Nýja stjórnin boðar herta stefnu í innflytjendamálum með auknum skorðum á þá sem sækjast eftir dvalar- og atvinnuleyfi í landinu. Einnig ætlar hún að fækka svonefndum kvótaflóttamönnum sem Finnland tekur við um helming og gera útlendingum erfiðara fyrir að öðlast ríkisborgararétt. Það síðastnefnda var aðaláherslumál Sannra Finna.

„Við ætlum að herða öll skilyrði fyrir því að koma til Finnlands, að dvelja hér og að vera í Finnlandi,“ sagði Mari Rantanen, nýr innanríkisráðherra úr röðum Sannra Finna við finnska ríkisútvarpið YLE í dag.

Hún sagði innflytjendastefnu Finnlands hafa verið þá frjálslyndustu á Norðurlöndunum undanfarin ár en nú verði skipt um kúrs.

„Það eru bara svo margir flóttamenn en það er lítið vit í þeim siðferðislegu látalátum að ætla að taka við eins mörgum og mögulegt er,“ sagði nýbakaði ráðherrann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×