Innlent

Út­lit fyrir að 2023 muni toppa árin fyrir far­aldur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/Ívar Fannar

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir útlit fyrir að árið í ár verði stærra fyrir greinina en árin fyrir Covid. Nýjar tölur Hagstofunnar sýna mikinn vöxt ferðaþjónustu frá því á síðasta ári.

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu á síðasta ári nam 7,8 prósentum, sem er hæsta hlutfall síðan árið 2018, þegar hann nam 8,2 prósentum og hafði þá aldrei verið hærri. Þá nam hlutdeild ferðaþjónustu í heildarvinnustundum 8,3 í fyrra, og hefur sömuleiðis ekki verið hærri síðan 2018, þegar hlutfallið var 9,8 prósent. 

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir viðspyrnu ferðaþjónustunnar sterka. Góð teikn séu á lofti nánast hvar sem litið er.

„Til dæmis á neyslu ferðamanna á landinu, sem er sú mesta sem við höfum séð, á breytilegu verðlagi. Og það á ári þar sem við erum með færri ferðamenn en áður, sem segir okkur það að verðmætin sem hver ferðamaður er að skilja eftir eru meiri en áður. Sem er líka það sem við viljum sjá,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Útlit sé fyrir að árið í ár verði stærra en árin fyrir faraldur.

„Það náttúrulega eru ansi margar breytur sem þarf að rannsaka betur til þess að við áttum okkur betur og getum spáð betur um framíðina, en það lítur út fyrir það að þessi þróun muni halda áfram.“

En er Ísland þá að nálgast hámarksafkastagetu í ferðaþjónustu?

„Allar spurningar um það hvað við getum tekið á móti mörgum eru mjög afstæðar.“

Þar skipti meðal annars máli hvar ferðamennirnir halda sig, hvort þeir séu allir nálægt höfuðborgarsvæðinu eða dreifist um landið. Vel hafi gengið að byggja upp innviði og stefnan sé ekki að fylla landið af ferðamönnum þar til þolmörkum verði náð.

„Markmiðið núna hlýtur að vera að ná stöðugleika í sjálfbærri atvinnugrein sem gefur af sér gríðarlegar fjárhæðir inn í þjóðarbúið og byggir upp samfélagið fyrir okkur öll. Það er markmiðið,“ segir Jóhannes. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×