McCartney sagði í viðtali við BBC Radio 4 í morgun að hljómsveitin hefði notað gervigreind til að „losa“ rödd John Lennon úr gömlu demói, þ.e. ókláraðri upptöku, til að klára lagið.
„Við vorum að klára það og það kemur út á þessu ári,“ sagði hann í viðtalinu.
Hann nefndi lagið ekki á nafn en það er talið vera óklárað lag John Lennon sem heitir „Now and Then“.
Árið 1995 kom til greina að „Now and Then“ yrði mögulegt endurkomulag Bítlanna þegar hljómsveitin var að taka saman Anthology-safn sitt. En ekkert varð úr því.

Lennon söng að handan
Árið áður hafði McCartney fengið kassettu merkta „For Paul“ frá Yoko Ono sem Lennon hafði búið til skömmu fyrir andlát sitt 1980.
Lögin á kasettunni voru flest tekin upp á boom box-stereótæki þar sem Lennon sat og spilaði á píanó í íbúðinni sinni í New York. Lögin voru því ansi hrá, berstrípuð og í lélegum hljóðgæðum.
Jeff Lynne, próodúsent og söngvari ELO, hreinsaði tvö laganna af kasettunni, „Free As a Bird“ og „Real Love“, sem voru síðan kláruð og gefin út 1995 og 1996 sem hluti af Anthology-safni Bítalnna. Það var þá fyrsta nýja efni Bítlanna í 25 ár.
Hljómsveitin ætlaði líka að taka upp „Now and Then“ en hættu fljótlega við.
Harrison vildi ekki taka upp lagið
McCartney greindi síðar frá því að George Harrison hefði fundist lagið „rusl“ (e. rubbish) og hann hefði neitað að vinna í því.
Þá áttu einnig að hafa verið miklir gallar á upptökunni, það heyrðist stöðugt suð í laginu. Hér má heyra demó Lennon á Youtube:
Árið 2009 kom lagið út í ólöglegri útgáfu, bootleg-geisladisk, án suðsins og töldu aðdáendur hljómsveitarinnar að upptökunni hefði verið stolið úr íbúð Lennon til að hægt væri að hreinsa suðið af henni.
McCartney hefur undanfarin ár ítrekað sagst vilja klára lagið. Í heimildamynd BBC um Jeff Lynne frá árinu 2012 sagði McCartney að lagið væri það eina sem héngi enn yfir honum og að hann ætlaði einn daginn að stökkva inn í stúdíó til að klára það með Lynne.
Nú virðist sem þeir hafi látið verða af því. Ef lagið sem er að koma út er yfir höfuð „Now and Then“.