Innlent

„Þetta er rosa mikil óvissa og ótrúlega leiðinlegt fyrir okkur“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Dansarar frá listdanskólanum Plié mótmæltu gjaldþroti skólans fyrir utan Alþingi í morgun.
Dansarar frá listdanskólanum Plié mótmæltu gjaldþroti skólans fyrir utan Alþingi í morgun. Vísir/Vilhelm

„Dans er líka íþrótt,“ segja nemendur listdansskólans Plié sem mótmæltu og sýndu um leið listir sínar á Austurvelli í morgun. Greint var frá gjaldþroti dansskólans á mánudag en hann hefur verið starfræktur síðan 2014. Stjórnendur skólans segja framtíð listdansskóla á Íslandi í hættu fái þau ekki viðeigandi styrki frá hinu opinbera líkt og aðrar íþróttir og tómstundir. Nemendur skólans eru á leið á heimsmeistaramót eftir tæpan mánuð og segja óvissuna erfiða. 

Listdansskólinn Plié hefur verið starfræktur síðan árið 2014. Þar geta nemendur æft margar tegundir dans, til að mynda „acrobat“, stepp og ballett. Að sögn eigenda Plié stunda 600 til eitt þúsund nemendur listdansnám við skólann ár hvert. Rekstrarform listdansskóla á Íslandi sé gríðarlega erfitt þar sem skólarnir njóti ekki stuðnings hins opinbera.

Elva Rut Guðlaugsdóttir, skólastjóri og annar eigandi Plié, var á mótmælunum ásamt nemendum sínum. „Við erum komin til þess að opna á þessa endalausu umræðu um hvað er mikil ósanngirni á milli greina. Listgreinar fá engan stuðning frá hinu opinbera en íþróttir og tónlist fá stuðning. Þannig að það að halda úti rekstrinum er orðið gríðarlega krefjandi. Þetta er orðið þannig að allir listdansskólar munu væntanlega leggjast af ef ekkert er gert.“

Listdansnemendur Plié sýndu listir og mótmæltu fyrir utan Alþingi. Vísir/Vilhelm

Kolbrún Soffía Þórsdóttir, nemandi í skólanum, var einnig á mótmælunum en hún segir óvissuna mikla og að hún sé erfið. Hópurinn sé á leið á heimsmeistaramót eftir tuttugu daga og viti ekkert hvar þau eigi að æfa. Hingað til hafi hópurinn æft í kirkju. „Við viljum fá styrk alveg eins og allar aðrar íþróttir því dans er líka íþrótt,“ segir Kolbrún Soffía.

Ármey Elba Ernudóttir æfir einnig dans við listdansskólann. Hún segir leiðinlegt að heyra að dans flokkist ekki sem íþrótt. 


Tengdar fréttir

Allir list­dans­skólar landsins eigi í erfið­leikum með rekstur

Elva Rut Guðlaugsdóttir, annar eiganda Plié listdansskóla segir útlitið hjá listdansskólum á Íslandi hræðilegt. Hún segir framtíð danslistarinnar á Íslandi klárlega í hættu og að um þúsund nemendur séu hræddir um að missa dansskólann sinn.

Njóta ekki sömu stöðu og íþróttafélög og skila lyklunum

Listdansskólinn Plié, sem staðsettur er í Víkurhvarfi í Kópavogi, mun hætta starfsemi og leita nýs húsnæðis. Ástæðan er hátt leiguverð en einnig sú staðreynd að hvorki ríki né sveitarfélög komi að rekstrinum með nokkrum hætti. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×