Innlent

Á­hyggjur vaxa í takt við aukið koffín­magn orku­drykkja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á meðan Prime Hydration er koffínlaus inniheldur Prime Energy 200 milligrömm af koffíni.
Á meðan Prime Hydration er koffínlaus inniheldur Prime Energy 200 milligrömm af koffíni. Getty/Mike Kemp

Áhyggjur eru uppi af mikilli koffínneyslu ungmenna en svokallaðir „orkudrykkir“ sem hafa ratað á markað á síðustu árum innihalda jafn mikið koffín eða meira koffín og tveir kaffibollar eða sex dósir af hefðbundnum gosdrykk.

„Stuttu eftir að hafa drukkið þá, þá leituðu nemendur til heilsuþjónustunnar og sögðu að þeim liði ekki vel og að hjartað þeirra væri á fullu,“ segir Rebecca Brown, yfirmaður heilbrigðisþjónustu skólaumdæmisins í Wilmington í Massacusetts, um orkudrykkina Prime Energy.

New York Times fjallar ítarlega um málið en í umfjöllun miðilsins segir meðal annars að dós af Prime Energy innihaldi um 200 milligrömm af koffíni, sem er hálfur ráðlagður dagskammtur fyrir fullorðna.

Magnið samsvarar tveimur Red Bull orkudrykkjum, sem voru með þeim fyrstu sem komu á markað, tveimur kaffibollum eða sex dósum af Coca Cola.

Þess ber að geta að tvær útgáfur eru til af Prime, sem er meðal annars í eigu samfélagsmiðlastjörnunnar Logan Paul; Energy í dósum og Hydration í flöskum. Hydration er koffínlaus.

Bráðalæknirinn Ryan Stanton segir að á sínum tíma hefðu allir talið að Red Bull væri toppurinn þegar kæmi að koffínmagni í orkudrykk en nú séu að koma á markað drykkir sem innihalda tvisvar til þrisvar sinnum meira koffínmagn.

Sjálfur segist hann hafa tekið á móti ungmennum á sjúkrahúsinu þar sem hann starfar sem kvarta um kvíða og of hraðan hjartslátt, ekki síst í prófatíð.

Eins og fyrr segir er ráðlagður dagskammtur af koffíni fyrir fullorðna 400 milligrömm og 100 milligrömm fyrir börn á aldrinum 12 til 18 en börn undir 12 ára eiga ekki að neita koffíns yfir höfuð.

Sum skólaumdæmi í Bandaríkjunum hafa bannað sölu og dreifingu koffíndrykkja til grunnskólanema en yfirleitt er ekki bannað að taka þá með í skólann. Þeir sem hafa gagnrýnt takmarkanirnar benda hins vegar meðal annars á að kaffidrykkur á Starbucks getur innihaldið allt að 265 milligrömm af koffíni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.