Erlent

Föng­uð­u eyð­i­legg­ing­un­a í Kher­son úr loft­i

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorpið Dnipryany, sem er austan megin við Dnipró og í höndum Rússa.
Þorpið Dnipryany, sem er austan megin við Dnipró og í höndum Rússa. AP

Drónamyndir frá Kherson-héraði í Úkraínu, bæði vestan og austan megin við Dnipróá, sýna gífurlega eyðileggingu vegna flóða. Vatn hefur streymt yfir fjölmargar byggðir og valdið gífurlegri eyðileggingu.

Starfsmenn AP fréttaveitunnar flugu dróna yfir Kakhovka-stífluna í Kherson-héraði í Úkraínu í gær, degi eftir að stíflan brast. Einnig náðu þeir myndum af byggðum bólum neðar með Dnipróánni.

Stíflan var líklega sprengd upp aðfaranótt þriðjudagsins en hún hefur verið undir stjórn Rússa frá fyrsta degi innrásar þeirra í Úkraínu í fyrra. Yfirvöld í Úkraínu vöruðu við því í október að Rússar hefðu komið fyrir sprengiefnum í stíflunni. Stíflan gæti hafa brostið vegna fyrri skemmda og álags en sérfræðingar segja það ólíklegt.

Rússar hafa haldið því fram að stíflan hafi brostið eftir eldflaugaárás en myndefni af þeim byggingum sem standa enn sýna engin ummerki slíkrar árásar, samkvæmt frétt AP.

Embættismenn í Úkraínu sögðu í morgun að um 600 ferkílómetrar lands hefðu farið undir vatn í kjölfar þess að stíflan brast. Þar á meðal er mikið af ræktunarlandi og munu flóðin og hvarf uppistöðulónsins við stífluna hafa miklar afleiðingar fyrir landbúnað á svæðinu til lengri tíma.

Íbúar á svæðinu vesturbakka Dnipró hafa eftir nágrönnum sínum á hinum bakkanum, sem Rússar stjórna, að rússneskir hermenn hafi flúið vegna flóðanna en hafi ekki aðstoðað óbreytta borgara með nokkrum hætti.

Starfsmaður Rauða krossins sagði símalínur hjálparsamtakanna loga vegna símtala frá austurbakkanum þar sem fólk hafi verið að biðja um hjálp vegna flóðanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×