Erlent

Krókódílar færir um eingetnað

Ólafur Björn Sverrisson og Samúel Karl Ólason skrifa
Meyfæðingar svokallaðar gætu verið algengar á meðal krókódíla, samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna.
Meyfæðingar svokallaðar gætu verið algengar á meðal krókódíla, samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna. Getty

Krókódíll í dýragarði í Kosta Ríka verpti eggjum sem innihéldu lífvænleg fóstur, án þess að hafa nokkurn tímann komið nálægt karlkyns krókódíl. Eggin klekktust ekki út en fóstrin í þeim voru nánast með sama erfðamengi og móðirin.

Þetta er fyrsta dæmið um eingetnað meðal krókódíla en þykir til marks um að það gerist reglulega, án þess að eftir því hafi verið tekið. Krókódíllinn var átján ára þegar hann verpti eggjunum. Það vakti athygli að nokkur af eggjunum innihéldu fóstur. Þau klekktust ekki út og voru tekin til rannsóknar. Sú rannsókn leiddi í ljós að krókódíllinn framleiddi fóstrin án aðkomu karls.

Í frétt BBC segir að krókódíllinn hafi verið haldið frá öðrum krókódílum frá tveggja ára aldri. Dr. Warren Booth hefur rannsakað eingetnað (e. parthenogenesis) síðastliðinn áratug og segir uppgötvunina ekki koma á óvart.

„Við höfum tekið eftir þessu hjá hákörlum, fuglum, snákum og eðlum. Þetta er furðulega algengt,“ segir Booth. Krókódílar hafi ekki verið rannsakaðir sérstaklega til þessa.

Kenning er uppi meðal rannsakenda að dýrategundir verði færar um eingetnað þegar það fækkar í þeirra hópi eða þegar tegundirnar eru á barmi útrýmingar. Þetta gæti hafa átt sér stað á meðal risaeðlna.

„Sú staðreynd að eingetnaður á sér stað á svipaðan hátt hjá svo mörgum mismunandi tegundum bendir til þess að þetta sé mjög forn eiginleiki sem hefur erfst í gegnum aldirnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×