Erlent

Árás á stífluna „umhverfislegt gjöreyðingarvopn“

Árni Sæberg skrifar
Vatnsflaumur frá stíflunni hefur valdið mikilli eyðileggingu í Kherson.
Vatnsflaumur frá stíflunni hefur valdið mikilli eyðileggingu í Kherson. Libkos/AP

Úkraínuforseti hefur sakað Rússa um að hafa sprengt stíflu í Kherson-héraði af ásettu ráði og segir þá hafa beitt „umhverfislegu gjöreyðingarvopni“ og framið stríðsglæp.

Hið minnsta sextán þúsund manns hafa þegar flúið og stjórnlaust vatnsstreymi er um svæðið eftir að Kakovka-stíflan á Dnípró-fljóti í Kherson-héraði brast í nótt. Farið var yfir stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2, þar sem sjá má götur borgarinnar Nova Kahofka á bólakafi.

Í daglegu ávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar sagði Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti að aðeins frelsun gjörvallrar Úkraínu gæti komið í veg fyrir að hryðjuverk Rússa í landinu héldu áfram.

„Slík eyðilegging af ásettu ráði á vatnsaflsvirkjuninni er umhverfislegt gjöreyðingarvopn,“ sagði forsetinn. Fyrr í dag sagði Oleksii Kuleba, háttsettur embættismaður á skrifstofu Úkraínuforseta, að árásin á stífluna væri glæpur Rússa gegn úkraínsku þjóðinni, náttúrunni og lífinu sjálfu. Reuters greinir frá.

Þá sagði forsetinn að saksóknarar á hans vegum hafi þegar haft samband við Alþjóðasakamáladómstólinn vegna málsins, en árásis á stíflur eru bannaðar samkvæmt Genfar-sáttmálanum.

Rússar hafa aftur á móti þvertekið fyrir að hafa nokkuð haft að gera með eyðileggingu stíflunar. Erindreki þeirra sagði á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn var í dag að beiðni bæði Rússa og Úkraínumanna, að Úkraínumenn sjálfir hefðu eyðilagt stífluna og sakaði þá um hættuleg herkænskubrögð og stríðsglæp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×