Íslenski boltinn

Logi og Sölvi fengu vægustu refsingu

Sindri Sverrisson skrifar
Loga Tómassyni var heitt í hamsi líkt og fleirum, eftir jafnteflið við Breiðablik á föstudaginn.
Loga Tómassyni var heitt í hamsi líkt og fleirum, eftir jafnteflið við Breiðablik á föstudaginn. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Víkingarnir Logi Tómasson og Sölvi Geir Ottesen voru í dag úrskurðaðir í eins leiks bann vegna hegðunar sinnar eftir hitaleikinn gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta á föstudagskvöld.

Upp úr sauð í leikslok eftir að Breiðablik hafði skorað tvö mörk á örskömmum tíma og tryggt sér 2-2 jafntefli.

Sölvi Geir fékk að líta rauða spjaldið, að því er virtist fyrir kjaftbrúk en sjá mátti þá Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, öskra hvor til annars í leikslok.

Logi fékk einnig rautt spjald en hann ýtti við Halldóri Árnasyni, aðstoðarþjálfara Breiðabliks, á leið sinni af vellinum og í átt til búningsklefa. Þeir Sölvi missa af leik Víkings við Fram á sunnudaginn.

Ekki liggur ljóst fyrir hvort að frekari eftirmálar verði af því sem gerðist í leikslok en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagðist í samtali við Vísi í dag ekki geta staðfest hvort að ummæli manna í viðtölum eftir leik væru þess efnis að hún myndi vísa þeim til aga- og úrskurðarnefndar.

Sölvi Geir Ottesen fékk rautt spjald vegna framkomu sinnar í leikslok í Kópavogi á föstudag.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Víkingar fengu hins vegar 20.000 króna sekt vegna brottvísunar Sölva, og 4.000 króna sekt að auki vegna uppsafnaðra refsistiga.

Á fundi aga- og úrskurðarnefndar í dag var sömuleiðis staðfest að Ágúst Eðvald Hlynsson yrði í leikbanni í undanúrslitum Mjólkurbikarsins, eftir að hafa fengið sína aðra áminningu í keppninni í sigrinum gegn FH í gær. FH-ingurinn Eggert Gunnþór Jónsson fékk eins leiks bann, vegna rauða spjaldsins í sama leik, sem hann getur ekki tekið út fyrr en á næsta ári.

Elvis Bwomono missir af næsta leik ÍBV í Bestu deildinni vegna uppsafnaðra áminninga, líkt og Keflvíkingurinn Gunnlaugur Fannar Guðmundsson sem er þegar kominn með sjö gul spjöld í Bestu deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.