Enski boltinn

Manchester United þarf að vinna til að vernda eigin arfleið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Erik Ten Hag mætast í úrslitaleik FA-bikarsins í dag.
Pep Guardiola og Erik Ten Hag mætast í úrslitaleik FA-bikarsins í dag. Vísir/Getty

Manchester United og Manchester City mætast í dag í úrslitaleik enska FA-bikarsins. Manchester City á möguleika á að vinna þrennuna en nágrannar þeirra eru þeir einu sem hafa náð því áður.

Leik Manchester United og Manchester City er dag er beðið með mikilli eftirvæntingu enda í fyrsta sinn sem þessi nágrannalið mætast í úrslitum FA-bikarsins. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 en upphitun hefst klukkan 13:30.

Manchester City er nú þegar orðið enskur meistari og einnig komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem þeir mæta Inter frá Ítalíu í úrslitaleik um næstu helgi. Manchester City á því möguleika á að vinna þrennuna líkt og nágrannar þeirra í United gerðu árið 1999 eins og frægt er.

Vinni City þrennuna fellur óneitanlega smá skuggi á þrennu United frá 1999. Það er ekki alveg eins að afreka eitthvað ef einhver annar gerir það líka, sérstaklega ef við tökum inn í myndina að City náði í tuttugu fleiri stig í úrvalsdeildinni á þessu ári heldur en United gerði fyrir tuttugu og fjórum árum síðan.

Það er því ekki bara bikar í húfi í dag heldur fær United tækifæri til að vernda eigin arfleið með sigri.

Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri United, gefur þó lítið fyrir þetta og vill að leikmenn United einblíni á að liðið gæti unnið sinn annan titil á tímabilinu.

„Við viljum vinna bikar. Þetta snýst ekki um að stoppa þá. Þetta snýst um að við vinnum bikar,“ sagði Ten Hag í viðtali við Skysports.

Leikur Manchester City og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í dag. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 13:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×