Enski boltinn

Haaland um mögu­leikann að vinna þrennuna: Þetta er minn stærsti draumur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City manninn Erling Haaland dreymir um sigur í deild, bikar og Meistaradeild á þessu tímabili.
Manchester City manninn Erling Haaland dreymir um sigur í deild, bikar og Meistaradeild á þessu tímabili. Getty/Stu Forster

Manchester City er tveimur sigrum frá því að vinna sögulega þrennu á þessu tímabili og besti leikmaður tímabilsins er spenntur.

City mætir Manchester United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á Wembley á morgun og svo ítalska félaginu Internazionale í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í viku síðar. Báðir leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport 2.

Aðeins eitt enskt félag hefur unnið þrennuna en Manchester United náði því á 1998-99 tímabilinu. United menn geta því sjálfir komið í veg fyrir að City jafni afrek þeirra.

„Það væri ótrúlegt að ná því að skrifa söguna,“ sagði hinn 22 ára gamli Erling Haaland.

Manchester City tryggði sér enska meistaratitilinn með flottum endaspretti og ekki síst fyrir þátt Haaland sem sló markamet ensku úrvalsdeildarinnar með því að skora 36 mörk í 35 leikjum.

Mancheter City hefur unnið ensku deildina margoft og enska bikarinn líka á síðustu árum en félagið hefur aldrei unnið Meistaradeildina.

„Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að þeir keyptu mig. Við þurfum ekkert að fela það,“ sagði Haaland við breska ríkisútvarpið.

„Það myndi skipta öllu máli fyrir mig að ná þessu og ég mun gera allt sem ég get svo að okkur takist þetta. Þetta er minn stærsti draumur og vonandi verða draumar að veruleika,“ sagði Haaland.

„Þetta verður alls ekki auðvelt því þetta eru úrslitaleikir á móti tveimur góðum liðum sem gera allt til þess að eyðileggja þetta fyrir okkur. Þau mæta tilbúin og við verðum að spila okkar besta leik,“ sagði Haaland.

„Ef við spilum okkar besta þá eigum við góðan möguleika á að ná þessu,“ sagði Haaland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.