Enski boltinn

Man. City sagt vilja sækja sér mann á brunaútsöluna hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mateo Kovacic hefur verið hjá Chelsea í fimm ár en gæti verið á leiðinni til Englandsmeistaranna.
Mateo Kovacic hefur verið hjá Chelsea í fimm ár en gæti verið á leiðinni til Englandsmeistaranna. Getty/Visionhaus

Chelsea ætlar sér að selja margra leikmenn í sumar til að skera niður feitan leikmannahóp sinn.

Einn af þeim er króatíski miðjumaðurinn Mateo Kovacic og Englandsmeistarar Manchester City eru sagðir vilja kaupa hann á brunaútsölunni hjá Chelsea

Fabrizio Romano segir frá þessu og að Mauricio Pochettino, nýr stjóri Chelsea, hafi gefið grænt ljós á það að Kovacic verði seldur.

Kovacic er 29 ára gamall og á eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea.

Félögin hafa ekki komist að samkomulagi um söluverð en Kovacic hefur fengið leyfi til að ræða kaup og kjör við forráðamenn Manchester City. Það er búist við því að City þyrfti að borga í kringum 35 milljónir punda fyrir hann.

Kovacic á að baki fimm ár hjá Chelsea en hann kom þangað frá Real Madrid árið 2018, fyrst á láni en svo var hann keyptur á fjörutíu milljónir punda.

Pep Guardiola vill styrkja miðjuna hjá sér í sumar og hann sér eitthvað í króatíska landsliðsmanninum. Ekki er vitað hvort Ilkay Gundogan verði áfram og svo gæti farið að hinn reynslumikli Kovacic komi inn í hans hlutverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×