Erlent

Armie Hammer ekki ákærður fyrir nauðgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Armie Hammer hefur verið sakaður um kynferðisbrot og ofbeldi af mörgum konum.
Armie Hammer hefur verið sakaður um kynferðisbrot og ofbeldi af mörgum konum. Getty/Matt McClain

Leikarinn Armie Hammer verður ekki ákærður fyrir nauðgun. Hann var sakaður um nauðgun árið 2021 en saksóknarar í Los Angeles hafa ákveðið að ákæra ekki vegna skorts á sönnunargögnum. Hammer hefur verið sakaður um ofbeldi, líkamlegt og kynferðislegt, af mörgum einstaklingum.

Ásakanirnar sem hafa verið til rannsóknar snúa að því að kona sem heitir Effie Angelova sakaði hann um nauðgun um árið en þau áttu í sambandi yfir nokkur ár.

Angelova hélt blaðamannafund þar sem hún greindi frá því að hún hefði átt í ástarsambandi við Hammer frá 2017. Þá sakaði hún hann um að hafa beitt hana andlegu ofbeldi og margoft farið yfir mörk hennar í samskiptum, þá sérstaklega í kynlífi. Árið 2017 hafi hann nauðgað á ofbeldisfullan hátt í fjóra tíma.

Sjá einnig: Stígur fram og sakar Armie Hammer um nauðgun

Birt var heimildarmynd um Hammer í fyrra þar sem meðal annars var fjallað um skilaboð hans til kvenna sem hann átti í sambandi við. Í einum slíkum skilaboðum sagðist hann vera mannæta.

Sjá einnig: „Ég er hundrað prósent mannæta“

Hollywood Reporter hefur eftir saksóknurum í Los Angeles að oft sé erfitt að finna sannanir í nauðgunarmálum og því séu reynslumestu saksóknararnir settir í þau mál. Eftir ítarlega tveggja ára rannsókn sé niðurstaðan sú að ekki hafi fundist tilefni til ákæru.

Það sé að miklu leyti vegna flókins sambands Angelova og Hammer og það geri erfitt að sanna að hann hafi þvingað hana til samræðis.

Hammer hefur neitað ásökunum sem á hann hafa verið bornar en í kjölfarið missti hann fjölmörg verkefni og umboðsmenn hans slitu samstarfinu við hann.

Hann birti færslu á Instagram í kvöld þar sem hann sagðist þakklátur saksóknurum í Los Angeles fyrir ítarlega rannsókn þeirra og þá niðurstöðu að hann verði ekki ákærður.

Hammer heldur því fram í færslunni að hann hafi engan glæp framið og segist hlakka til þess að byggja líf sitt upp á nýjan leik.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.