Erlent

NATO sendir fleiri her­menn til Kósovó vegna óróa

Kjartan Kjartansson skrifar
Pólskir hermenn sem eru hluti af friðargæsluliði NATO standa vörð í bænum Zvecan þar sem átök brutust út við mótmælendur af serbneskum uppruna á mánudag.
Pólskir hermenn sem eru hluti af friðargæsluliði NATO standa vörð í bænum Zvecan þar sem átök brutust út við mótmælendur af serbneskum uppruna á mánudag. AP/Marjan Vucetic

Um sjö hundruð hermenn á vegum Atlantshafsbandalagsins verða sendir til Kósovó og önnur liðsveit sett í viðbragðsstöðu vegna vaxandi óróa þar á undanförnum dögum. Tugir NATO-hermanna og heimamanna særðust í átökum í norðanverðu Kósovó á öðrum degi hvítasunnu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að senda liðsauka til Kósovó við þá um það bil fjögur þúsund hermenn sem eru fyrir í landinu. Önnur liðsveit verður sett í viðbragðsstöðu sem hægt verði að kalla hana hratt út ef þörf þykir á.

Reuters-fréttastofan segir að fréttamaður hennar hafi séð fjórar stórar bílalestir á vegum NATO á leið til norðurhluta Kósovó í gærkvöldi.

Ákvörðunin er viðbragð við átökum sem blossuðu upp á milli friðargæsluliða og mótmælenda af serbneskum uppruna í bænum Zvecan í norðanverðu Kósovó á mánudag.  Kósovóserbar sniðgengu sveitarstjórnarkosningar sem fóru nýlega fram í þessum héruðum og fyrir vikið náðu Kósovóalbanir kjöri í nokkrum bæjarfélögum. Mótmælendur reyndu að hefta för þeirra á mánudag.

Íbúar í norðurhéruðunum eru að langmestu leyti af serbneskum ættum þó að á landsvísu séu um níutíu prósent af albönskum uppruna. Kósovóserbar eru margir enn ósáttir við að Kósovó hafi lýst yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008. Serbnesk stjórnvöld viðurkenna ekki Kósovó sem fullvalda ríki.

Þrjátíu friðargæsluliðar NATO særðust í átökunum og á sjötta tug mótmælenda. Boðað var til frekari mótmæla í dag.

Of mikið ofbeldi í Evrópu fyrir

Ásakanir ganga á víxl á milli kósovóskra og serbneskra stjórnvalda. Þau fyrrnefndu saka Aleksandar Vucic, forseta Serbíu, um að ala á sundrung í Kósovó. Vucic segir stjórnvöld í Pristina bera ábyrgð á óróanum nú með því að ætla að koma Kósovóalbönum í bæjarstjórastóla í norðurhluta landsins með valdi.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hvatti kósovóska og serbneska leiðtoga til að sýna stillingu og draga úr spennunni.

„Það er of mikið ofbeldi í Evrópu fyrir, við ráðum ekki við enn meiri átök,“ sagði hann við fréttamenn í Brussel.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.