Enski boltinn

Hefur dæmt sinn síðasta leik í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Marriner dæmdi þrettán leiki á síðasta tímabili sínu í ensku úrvalsdeildinni.
Andre Marriner dæmdi þrettán leiki á síðasta tímabili sínu í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Richard Sellers

Andre Marriner er hættur að dæma í ensku úrvalsdeildinni en þetta tilkynnti deildin eftir lokaumferðina um síðustu helgi.

„Ég kem til með að sakna augnablikanna inn á vellinum en ég hef búið mér til margar frábærar minningar sem ég hugsa til. Ég hef elskað næstum því hverja einustu mínútu,“ sagði Andre Marriner í fréttatilkynningu.

Marriner er orðinn 52 ára gamall en hann náði að dæma 391 leik í ensku úrvalsdeildinni síðan að hann kom inn í deildina árið 2004. Hann hefur verið FIFA-dómari frá árinu 2008 en hóf dómgæslu árið 1992.

Hans fyrsti leikur var leikur Charlton og Norwich árið 2004 en sá síðasti var 5-0 sigur Arsenal á Wolves um helgina.

Marriner dæmdi þrettán leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Tvö rauð spjöld fóru á loft hjá honum og annað þeirra var beint rautt spjald á Casemiro hjá Manchester United í leik á móti Crystal Palace í febrúar.

Marriner gaf alls 1236 gul spjöld og 61 rautt spjald í 391 leik í ensku úrvalsdeildinni og í þeim gaf hann alls 77 vítaspyrnur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.