Enski boltinn

Fjölgar í hópi leik­manna Man. United sem missa af bikar­úr­slita­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Martial með syni sínum eftir lokaleik  Manchester United  í deildinni sem var á móti Fulham á Old Trafford .
Anthony Martial með syni sínum eftir lokaleik  Manchester United  í deildinni sem var á móti Fulham á Old Trafford . Getty/Ash Donelon

Manchester United spilar um næstu helgi stærsta leik sinn á tímabilinu og kannski einn af þeim stærri í sögu félagsins.

United mætir þá nágrönnum sínum í Manchester City í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar en Manchester liðin eru að mætast í fyrsta sinn í bikarúrslitaleik á Wembley.

Það er aðeins meira en titill í boði því Manchester City á enn möguleika á að jafna einstakt afrek Manchester United frá 1998-99 tímabilnu þegar United vann þrennuna.

City er orðið enskur meistari og líka komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. United getur tryggt það að United verði áfram eina enska félagið sem hefur unnið þrennuna með sigri í bikarúrslitaleiknum.

Það reynir hins vegar á leikmannahópinn því Erik ten Hag hefur horft á eftir mörgum leikmönnum sínum á meiðslalistann.

Síðastur til að detta út er franski framherjinn Anthony Martial. Martial tognaði aftan í læri í sigrinum á Fulham og verður ekki leikfær. Hann hafði komið inn á sem varamaður í leiknum og aðeins spilað síðustu 23 mínúturnar.

Martial hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni en er með níu mörk í 29 leikjum í öllum keppnum. Þessi meiðsli hjálpa heldur ekki framtíð hans hjá félaginu en Ten Hag mun leita að nýjum framherja í sumar.

Martial bætist í hóp þeirra Lisandro Martinez, Donny van de Beek og Marcel Sabitzer sem eru allir meiddir og missa af bikarúrslitaleiknum. Það eru samt vonir um að Brasilíumaðurinn Antony geti spilað leikinn þrátt fyrir að hafa verið borinn af velli í sigrinum á Chelsea í síðustu viku. Ökklameiðsli hans eru ekki eins alvarleg og óttast var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×