Erlent

Ríflega 1500 loftslagsmótmælendur handteknir

Árni Sæberg skrifar
Lögregluþjónar beittu ýmsum brögðum til þess að stöðva mótmælin.
Lögregluþjónar beittu ýmsum brögðum til þess að stöðva mótmælin. Sem van der Wal/EPA

Lögreglan í Haag í Hollandi handtók í dag 1579 aðgerðarsinna sem reyndu að teppa hraðbraut í nafni loftslagsaðgerða. Flestum þeirra var að lokum sleppt en líklegt er að fjörutíu þeirra verði sóttir til saka fyrir aðgerðir sínar í dag. Meðal mótmælenda var þekkt hollensk leikkona.

Að sögn lögregluyfirvalda í Haag voru mótmælendurnir handteknir þar sem þeir neituðu að rýma hraðbrautina þrátt fyrir að borgaryfirvöld hefðu bannað mótmælin. Hollenski miðillinn NOS greinir frá.

Lögreglan segir að fjörutíu hinna handteknu séu grunaðir um að hafa hindrað starf lögreglu og framið skemmdarverk. Ekki liggi þó enn fyrir hvort þeir verði sóttir til saka fyrir athæfi sitt. 

Þá segir að einn hafi verið handtekinn grunaður um að hafa bitið lögreglumann. Talsmenn umhverfisverndarsamtakann Extinction rebellion, sem skipulögðu mótmælin, hafa sagst ekkert kannast við meinta líkamsárás.

Öðrum handteknum mótmælendum hafi verið sleppt úr haldi nánast samstundis, enda hafi mótmælin að mestu farið friðsamlega fram.

Mótmælendur létu vatnið lítið á sig fá. Á skiltinu stendur „Hvaða steingervingur fjárfestir enn í olíu?“Sem van der Wal/EPA

Mótmælendur mættu í sundfötum

Lögreglan beitti meðal annars öflugum vatnsslöngum til þess að fá mótmælendur til þess að yfirgefa hraðbrautina. Lögreglan segir þó að vatnsbununum hafi verið beitt í hófi. Í frétt NOS segir að sumir mótmælenda hafi mætt vel undirbúnir til þess að takast á við vatnsgusur frá lögreglu. 

Tugir þeirra hafi raðað sér upp fyrir framan vatnsslöngurnar, íklæddir sundfatnaði og pollagöllum.

Ein þeirra sem varð fyrir barðinu á vatnsslöngunum var þekkta hollenska leikkonan Carice van Houten, sem flestir þekkja úr sjónvarpsþáttaröðinni Krúnuleikunum, þar sem hún lék hina göldróttu Melisandre. Haft er eftir henni að hún hafi fengið yfir sig væna gusu áður en hún var handtekin en að lokum sleppt úr haldi.

Carice van Houten er ötull loftslagsaðgerðasinni.Michel Porro/Getty

Þá hefur lögreglan í Haag greint frá því að hún hafi nýtt sjúkrabörur á hjólum til þess að koma mótmælendum af hraðbrautinni „með öruggum og skilvirkum hætti“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×