Íslenski boltinn

Boðið upp á marka­veislur í Mjólkur­bikarnum

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Stjörnunnar fyrr á tímabilinu
Frá leik Stjörnunnar fyrr á tímabilinu VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Fimm leikjum er lokið í 16-liða úr­slitum Mjólkur­bikars kvenna í dag. Stjarnan bauð upp á marka­veislu gegn Gróttu á Sel­tjarnar­nesi og þá vann Kefla­vík góðan sigur á Þór/KA á heima­velli.

Það var boðið upp á algjöra markaveislu á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi í dag þegar að Grótta tók á móti Stjörnunni. Svo fór að Stjarnan vann öruggan 9-1 sigur þar sem að Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir fór mikinn og skoraði alls fjögur mörk. Stjarnan er því komið áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins. 

 Á Kópavogsvelli tóku heimakonur í Breiðabliki á móti Fram. Svo fór að Blikar röðuðu inn mörkum í leiknum og unnu að lokum sjö marka sigur, 7-0. Clara Sigurðardóttir skoraði tvö marka Breiðabliks sem fylgir Stjörnunni í 8-liða úrslit.

Á Meistaravöllum í Vesturbænum tók KR á móti Víkingi Reykjavík.  Bæði lið spila í Lengjudeild kvenna og má finna þau á sitt hvorum enda deildarinnar. Víkingur Reykjavík í toppsætinu og KR í botnsætinu. 

KR-ingar komust yfir með marki frá Hugrúnu Helgadóttur á 14. mínútu en Víkingskonur svöruðu fyrir sig í seinni hálfleik með fjórum mörkum. Tvö þeirra komu frá Freyju Stefánsdóttur. Víkingur Reykjavík er þar með komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins. 

Á Sauðárkróki tók Tindastóll á móti Selfossi. Svo fór að Selfoss gerði góða ferð norður og vann að lokum 1-0 sigur. Eva Lind Elíasdóttir skoraði eina mark leiksins á 34. mínútu. 

Þá tók Keflavík á móti Þór/KA á HS Orku vellinum í Keflavík. Heimakonur skoruðu bæði mörk leiksins í seinni hálfleik en markaskorararnir voru þær Sandra Voitane og Madison Elise Wolfbauer. 

Þá kemur í ljós í kvöld hvort það verður Þróttur Reykjavík eða Valur sem fylgja sigurvegurum dagsins í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins en flautað var til leiks á AVIS-vellinum í Laugardalnum klukkan 19:00. Hægt er að fylgjast með gangi mála þar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×