Liverpool á ekki lengur möguleika á því að spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð eftir að Manchester United vann 4-1 sigur á Chelsea í gær en Liverpool getur hvorki náð United eða Newcastle að stigum í lokaumferðinni um helgina.
Svo mikið var Salah niðri fyrir að hann fór á Twitter og tjáði sig.
„Ég er algjörlega niðurbrotinn. Það er engin afsökun fyrir þessu,“ skrifaði Mohamed Salah á Twitter.
I m totally devastated. There s absolutely no excuse for this. We had everything we needed to make it to next year s Champions League and we failed. We are Liverpool and qualifying to the competition is the bare minimum. I am sorry but it s too soon for an uplifting or optimistic pic.twitter.com/qZmA9WsueM
— Mohamed Salah (@MoSalah) May 25, 2023
„Við vorum með allt sem við þurftum til að komast í Meistaradeildina á næsta ári en okkur mistókst að ná því. Við erum Liverpool og það er algjört lágmark fyrir þetta félag að komast í Meistaradeildina. Mér þykir það leiðinlegt en það er of snemmt fyrir upplífgandi eða jákvæða færslu. Við brugðumst okkur sjálfum,“ skrifaði Salah.
Liverpool vann sjö leiki í röð og stuðningsmenn fengu aftur smá von en hún fór út um gluggann eftir 1-1 jafntefli við Aston Villa á heimavelli.
Liverpool spilar því í Evrópudeildinni á næsta tímabili.
Mo Salah er með 19 mörk og 11 stoðsendingar í 37 deildarleikjum á tímabilinu. Hann verður 31 árs í sumar og veit að tímabilunum á toppnum fer fækkandi. Þessa vegna er enn meira svekkjandi að fá ekki að spila við þá bestu í Evrópu næsta vetur.