Enski boltinn

Salah algjörlega niðurbrotinn: Engin afsökun fyrir þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er  búinn að búa til þrjátíu mörk á tímabilinu en það var ekki nóg til að ná einu af fjórum efstu sætunum.
Mohamed Salah er  búinn að búa til þrjátíu mörk á tímabilinu en það var ekki nóg til að ná einu af fjórum efstu sætunum. Getty/James Holyoak

Mohamed Salah lifði í voninni um Meistaradeildarsæti alveg fram á síðustu stundu og það er óhætt að segja að hann hafi verið vonsvikinn eftir úrslit gærkvöldsins.

Liverpool á ekki lengur möguleika á því að spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð eftir að Manchester United vann 4-1 sigur á Chelsea í gær en Liverpool getur hvorki náð United eða Newcastle að stigum í lokaumferðinni um helgina.

Svo mikið var Salah niðri fyrir að hann fór á Twitter og tjáði sig.

„Ég er algjörlega niðurbrotinn. Það er engin afsökun fyrir þessu,“ skrifaði Mohamed Salah á Twitter.

„Við vorum með allt sem við þurftum til að komast í Meistaradeildina á næsta ári en okkur mistókst að ná því. Við erum Liverpool og það er algjört lágmark fyrir þetta félag að komast í Meistaradeildina. Mér þykir það leiðinlegt en það er of snemmt fyrir upplífgandi eða jákvæða færslu. Við brugðumst okkur sjálfum,“ skrifaði Salah.

Liverpool vann sjö leiki í röð og stuðningsmenn fengu aftur smá von en hún fór út um gluggann eftir 1-1 jafntefli við Aston Villa á heimavelli.

Liverpool spilar því í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

Mo Salah er með 19 mörk og 11 stoðsendingar í 37 deildarleikjum á tímabilinu. Hann verður 31 árs í sumar og veit að tímabilunum á toppnum fer fækkandi. Þessa vegna er enn meira svekkjandi að fá ekki að spila við þá bestu í Evrópu næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×