Erlent

Hótar að draga Wagner-liða frá Bak­hmút

Kjartan Kjartansson skrifar
Merki rússneska málaliðahópsins Wagner Group. Liðsmenn hans hafa borið hitann og þungann af árás Rússa á borgina Bakhmút í Úkraínu.
Merki rússneska málaliðahópsins Wagner Group. Liðsmenn hans hafa borið hitann og þungann af árás Rússa á borgina Bakhmút í Úkraínu. Vísir/EPA

Leiðtogi Wagner-málaliðahópsins rússneska hótar því að draga hermenn sína frá borginni Bakhmút í austanverðri Úkraínu fyrir miðja næstu viku útvegi rússnesk stjórnvöld þeim ekki skotfæri. Hann skýtur föstum skotum á rússneska ráðamenn.

Orrustan um Bakhmút er ein sú langvinnasta og blóðugasta í innrás Rússa í Úkraínu til þessa. Hún hefur geisað í meira en níu mánuði. Málaliðar Wagner-hópsins hafa verið uppistaðan í árásarliði Rússa þar.

Nú hótar Jevgeníj Prigozhin, leiðtogi Wagner-hópsins, að draga lið sitt frá Bahkmút fyrir miðvikudaginn 10. maí vegna deilna um skotfæri, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Hann birti myndband af sér á samfélagsmiðlum þar sem hann sást ganga innan um lík fallinna málaliða. Krafði hann varnarmálaráðherra Rússlands um meiri hergögn.

„Shoigu! Gerasimov! Hvar eru skotfærin? Þeir komu hingað sem sjálfboðaliðar og dóu fyrir ykkur þannig að þið gætuð hlaupið í spik á mahóníviðarskrifstofunum ykkar,“ sagði Prigozhin í myndbandinu og beindi orðum sínum að Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Valeríj Gerasimov, yfirhershöfðingja.

Rússneskur stríðsbloggari hafði eftir Prigozhin í síðustu viku að Wagner-liðar væru á síðustu byssukúlunum og að þá vantaði þúsundir byssukúlna. Fengju þeir ekki nýja sendingu þyrftu þeir annað hvort að hörfa eða deyja.

Rob Lee, bandarískur varnarmálasérfræðingur, telur umkvartanir Prigozhin benda til þess að rússneska varnarmálaráðuneytið skammti nú skotfæri fyrir væntanlega gagnsókn Úkraínu. Ráðuneytið þurfi að hugsa um verja alla víglínu sínu en foringi málaliðahópsins hugsi aðeins um að taka Bakhmút.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×