Enski boltinn

Fjórði leikmaður Arsenal sem slítur krossband í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Laura Wienroither var borinn af velli gegn Wolfsburg.
Laura Wienroither var borinn af velli gegn Wolfsburg. getty/Stuart MacFarlane

Laura Wienroither, leikmaður Arsenal, sleit krossband í hné í leiknum gegn Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu. Hún er fjórði leikmaður Arsenal sem slítur krossband í hné á tímabilinu.

Wienroither var borin af velli í 2-3 tapi Arsenal fyrir Wolfsburg í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á mánudaginn. Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliði Wolfsburg sem vann einvígið, 5-4 samanlagt.

Nú hefur verið staðfest að Wienroither sleit krossband í hné og þarf að gangast undir aðgerð. Hún verður frá keppni næstu mánuðina.

Óheppnin hefur elt Arsenal þegar kemur að alvarlegum meiðslum á tímabilinu en fjórir leikmenn liðsins hafa slitið krossband í hné í vetur.

Á dögunum sleit fyrirliði Arsenal og enska landsliðsins, Leah Williamson, krossband og í fyrra urðu þær Beth Mead og Vivianne Miedema fyrir sama áfalli.

Þetta eru fjórir af mikilvægustu leikmönnum Arsenal sem er enn í baráttu um Englandsmeistaratitilinn. Liðið er í 4. sæti ensku ofurdeildarinnar með 38 stig, níu stigum frá toppliði Manchester United en á tvo leiki til góða.

Í síðasta mánuði sagði Jonas Eidevall, þjálfari Arsenal, að félagið þyrfti að fara ofan í saumana á því af hverju leikmenn liðsins væru að meiðast jafn alvarlega og raun hefur borið vitni og hvernig hægt væri að bregðast við auknu álagi í kvennaboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×