Erlent

Óttast hrun heil­brigðis­kerfisins í Súdan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi ríkja hefur staðið fyrir flutningum ríkisborgara sinna frá Súdan eftir að átökin brutust út.
Fjöldi ríkja hefur staðið fyrir flutningum ríkisborgara sinna frá Súdan eftir að átökin brutust út. AP/Farah Abdi Warsameh

Heilbrigðisstarfsmenn í Súdan segja innviði landsins að hruni komna. Lík safnast upp á götum úti í höfuðborginni Khartoum, fólk hefur neyðst til að drekka mengað vatn og skortur er á mat og eldsneyti.

Talið er að yfir 500 manns hafi látið lífið í átökum sem nú standa yfir í Súdan milli hersins og sveita hershöfðingjans Mohamed Hamdan Daglo. Miklar sprengingar heyrðust í borginni Omdurman í gær og í Bahri og Kafouri, í norðurhluta Khartoum.

Læknasamtök Súdan segja „umhverfishörmungar“ í uppsiglingu en líkum á götum Khartoum fjölgar og margir hafa neyðst til að drekka úr ánni Níl vegna vatnsskorts, sem hefur leitt til útbreiðslu alvarlegra sjúkdóma.

Læknasamtökin, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Rauði krossinn segja hættu á því að heilbrigðiskerfið hreinlega hrynji en sjúkrahús á bardagasvæðum hafa sum neyðst til að takmarka þjónustu verulega eða loka.

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Súdan, Volker Perthes, segir aðila hafa samþykkt að senda fulltrúa til viðræðna, mögulega í Sádi Arabíu. Það yrði forgangsmál að ná saman um fullt vopnahlé en tímabundin hlé á átökum hafa ekki skilað árangri hingað til.

Gert er ráð fyrir að allt að 800 þúsund manns gætu flúið til nærliggjandi landa, að sögn framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×