Erlent

Hollendingi bannað að gefa meira sæði

Atli Ísleifsson skrifar
Hollensk lög kveða á um að heimilt sé að gefa sæði sem leiða að hámarki til 25 barna, deilt á tólf mæður.
Hollensk lög kveða á um að heimilt sé að gefa sæði sem leiða að hámarki til 25 barna, deilt á tólf mæður. Getty

Dómstóll í Haag í Hollandi hefur bannað 41 árs karlmanni að gefa meira sæði. Sæðisgjafir mannsins hafa leitt til fæðinga að minnsta kosti 550 barna í nokkrum löndum og hefur dómstóllinn nú sagt stopp.

VG segir frá því að maðurinn hafi jafnframt veitt verðandi foreldrum villandi upplýsingar um fjölda fyrri sæðisgjafa. Hollensk lög kveða á um að heimilt sé að gefa sæði sem leiða að hámarki til 25 barna, deilt á tólf mæður.

Fram kemur að maðurinn hafi gefið sæði á fjölda frjósemisstofa í Hollandi, einni í Danmörku og sömuleiðis til fjölda kvenna sem hann hafði verið í samskiptum við á spjallborðum á netinu.

Foreldrar barns, sem þáðu sæði frá manninum, ásamt stofnun sem kemur fram fyrir hönd annarra foreldra, höfðaði einkamál gegn manninum.

„Allir þessir foreldrar þurfa nú að lifa við að barn þeirra sé hluti af mjög stóru neti nokkur hundruða hálfsystkina. Það er nokkuð sem þau völdu ekki sjálf,“ segir í dómsorðum. Það þjóni því hagsmunum barna sæðisgjafans að þetta net stækki ekki enn frekar.

Verjandi mannsins sagði hann einungis hafa haft það að leiðarljósi að aðstoða fólk sem ætti í vandræðum með að eignast börn, að eignast börn.

Dómari í málinu úrskurðaði að manninum væri skylt að hætta því þegar í stað að gefa sæði. Þá verði honum framvegis gert að greiða 100 þúsund evra í hvert skipti sem hann brýtur af sér með þessum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×