Árásinni var ekki beint gegn stúlkunni, sem hét Adriana, heldur var þetta uppgjör á milli tveggja glæpagengja. Átti hún sér stað við bensínstöð í ágústmánuði árið 2020. Skotvopn voru notuð í árásinni, þar á meðal hríðskotariffill, og heyrðu nágrannar að minnsta kosti tuttugu skothljóð. Adriana fékk tvö skot í sig og lést í kjölfarið á sjúkrahúsi.
„Þetta var árás þar sem hríðskotavopn voru notuð með kærulausum hætti á stað þar sem óbreyttir borgarar voru og einn af þeim lést. Þess vegna getur refsingin ekki verið neitt annað en lífstíðarfangelsi,“ sagði dómsformaðurinn Tore Gissin í fréttatilkynningu með dómnum.
Klíkustríð
Samkvæmt SVT er Maykil Yokhanna leiðtogi glæpaklíku sem starfar í suðurhluta Stokkhólms. Hann hefur fangelsisdóma á bakinu, meðal annars fyrir vopnalagabrot.
Í janúar árið 2020 lenti Yokhanna sjálfur í skotárás óvinaklíku þar sem félagi hans dó og eiginkona særðist. Yokhanna var hins vegar skotmarkið í þeirri árás. Klíka Yokhanna átti í útistöðum við klíku sem starfar í Botkyra, úthverfi Stokkhólms.
SVT greinir frá því að hinir tveir sem dæmdir voru fyrir morðið á Adriönu, Benjamin Mahdi og Hassan Mohammad, séu í lægri stöðu í glæpaklíkunni en Yokhanna. Auk þess að vera dæmdir fyrir morðið voru þeir dæmdir fyrir sjö manndrápstilraunir.