Íslenski boltinn

Tók skóna af hillunni til að hjálpa upp­eldis­fé­laginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Már Ragnarsson í leik með Stjörnunni á móti KR en hann lék með báðum félögum í mörg ár.
Þorsteinn Már Ragnarsson í leik með Stjörnunni á móti KR en hann lék með báðum félögum í mörg ár. Vísir/Hulda Margrét

Þorsteinn Már Ragnarsson var búinn að setja fótboltaskóna upp á hilluna en enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Hann mun eftir allt saman spila á ný með uppeldisfélaginu í sumar.

Víkingur Ólafsvík segir frá því á miðlum sínum að Þorsteinn hafi tekið skóna af hillunni til að hjálpa heimafélaginu sínu. Víkingur spilar í C-deildinni og varð í sjöunda sæti í deildinni í fyrrasumar.

„Okkur berast afar góðar fréttir í morgunsárið því Þorsteinn Már Ragnarsson hefur samþykkt að taka skóna úr hillunni, fá félagaskipti yfir í Víking Ó. og vera liðinu innan handar í sumar. Sökum vinnu mun Þorsteinn ekki ná að helga sig knattspyrnunni að fullu en mun engu að síður aðstoða liðið eins og hann getur,“ segir í frétt Víkinga.

Þorsteinn hafði leikið sinn síðasta leik á ferlinum með KR í lokaumferð Bestu deildarinnar í fyrra. Það var hans 204. leikur í efstu deild en í þeim hafði hann skorað 33 mörk.

Þorsteinn skoraði 18 mörk í 21 leik þegar Víkingar komust upp úr C-deildinni sumarið 2010, þá aðeins tvítugur, og hefur spilað með Ólafsvíkurliðinu í þremur efstu deildunum. Hann er einn marka- og leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með 6 mörk og 40 leiki.

Þorsteinn spilaði síðast með Víkingsliðinu í A-deildinni sumarið 2017 en hafði síðan farið í Stjörnuna áður en hann fór til KR á lokatímabilinu. Þorsteinn hafði áður spilað með KR frá 2012 og 2015 og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Vesturbæjarfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×